Íslenski boltinn

Gummi fékk oln­boga­skot og kýldi Bödda: „Mér er svo mis­boðið“

Sindri Sverrisson skrifar
Það sauð upp úr í Kaplakrika í gær þegar FH og Stjarnan mættust.
Það sauð upp úr í Kaplakrika í gær þegar FH og Stjarnan mættust. Stöð 2 Sport

„Þarna gerðust hlutir sem við eigum ekki að sjá,“ segir Guðmundur Benediktsson um átök þeirra Guðmundar Kristjánssonar og Böðvars Böðvarssonar í Kaplakrika í gær. Báðir eiga svo sannarlega skilið leikbann að mati Stúkunnar.

Guðmundur Kristjáns, eða Gummi eins og hann er kallaður, svaraði fyrir sig með kjaftshöggi eftir að Böðvar, eða Böddi, gaf honum olnbogaskot, í 3-0 sigri Stjörnunnar gegn FH í Bestu deildinni í fótbolta í gær.

„Böddi fer með olnbogann í hann, og Guðmundur slær hann bara,“ sagði Gummi Ben í Stúkunni á Stöð 2 Sport. 

Atla Viðari Björnssyni var sérstaklega misboðið vegna hegðunar Gumma Kristjáns og bætti við: „Hann gefur honum bara einn gúmoren. Bara gamla góða kjaftshöggið.“ 

Atvikið og umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan: Guðmundur kýlir Böðvar

Búast má við því að ný málskotsnefnd KSÍ vísi atvikinu til aga- og úrskurðarnefndar í ljósi þess að dómarinn, Pétur Guðmundsson, virtist missa alveg af því. Áður var það hlutverk framkvæmdastjóra KSÍ að vísa slíkum málum til aganefndar.

„Eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef séð“

„Þetta er eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef séð í fótboltaleik. Það að Böddi ákveði að gefa Guðmundi olnbogaskot þarna er til háborinnar skammar. Svarið hjá Gumma Kristjáns er álíka skammarlegt. Mig vantar orð til að lýsa hvað mér er misboðið við að horfa á þetta. Þetta er rosalegt.

Ég held að við hljótum að vera að horfa upp á það að að minnsta kosti annar þeirra, jafnvel báðir, fari í bann þegar framkvæmdastjóri KSÍ sendir málið til aganefndar,“ sagði Atli Viðar.

„Nei, nei, eigum við ekki að leyfa þeim bara… þeir voru báðir sáttir með niðurstöðuna. Vita báðir upp á sig sökina,“ sagði Baldur Sigurðsson léttur en Atli Viðar var svo sannarlega ekki á því:

„Auðvitað eru þeir báðir dauðfegnir. Það er engin önnur rétt niðurstaða en að þeir fari báðir í sturtu...

Mér er svo misboðið,“ sagði Atli Viðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×