Enski boltinn

Neita að selja Trossard

Sindri Sverrisson skrifar
Leandro Trossard er ekki að fara neitt.
Leandro Trossard er ekki að fara neitt. Getty/Jacques Feeney

Félagaskiptaglugginn í sádiarabíska fótboltanum lokast í dag og félögin þar eru enn að vinna að því að lokka til sín stjörnur úr evrópska boltanum.

Al Ittihad freistaði þess til að mynda að fá til sín hinn belgíska Leandro Trossard frá Arsenal en enska félagið hefur engan áhuga á því að missa hann.

Félagaskiptafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir að tilboðið hafi hljómað upp á 35 milljónir evra.

BBC segir tilboðið hafa verið þannig að Trossard færi að láni til að byrja með, fyrir fimm milljónir evra, en að Arsenal fengi svo 25 milljónir evra til viðbótar að lánssamningum loknum, til að gera félagaskiptin varanleg.

Samkvæmt frétt BBC segir Arsenal að leikmaðurinn sé einfaldlega ekki til sölu, sama hvaða tilboð berist.

Trossard kom til Arsenal árið 2023 og gerði þá samning til fjögurra og hálfs árs, með möguleika á árs framlengingu.

Trossard skoraði fyrsta markið í sigri Arsenal gegn Aston Villa í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og var í byrjunarliðinu í jafnteflinu við Brighton á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×