Innlent

Sam­fé­lagið ein­kennist af spennu sem brýst út í of­beldi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Helgi Gunnlaugsson er prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson er prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands. Vísir/Arnar

„Ég man í mínu ungdæmi, við strákarnir vorum með hnífa. Við vorum með dálka, meira að segja mjög hættulega dálka. Fengum þetta frá foreldrum í afmælisgjöf eða eitthvað slíkt. Það er ekkert nýtt að það séu hnífar í umhverfi okkar. Notuðum þá til að tálga og gera alls konar hluti en það hvarflaði ekki að okkur að beina þessu gegn öðrum. Þar er ákveðin breyting sem hefur átt sér stað.“

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands, um aukna ofbeldishegðun og vopnaburð á Íslandi í Reykjavík síðdegis. Að hans mati einkennist samfélagið af mikilli undirliggjandi spennu sem hafi áhrif á ungmenni og börn. 

Helgi tekur undir að það hefur verið meira um ofbeldisbrot og vopnaburð í samfélaginu undanfarið og þá sérstaklega hjá ungu fólki. Hann segir að þó að þjóðinni sé illa brugðið vegna hnífstungu á Menningarnótt 24. ágúst, þar sem stúlka lét lífið, að þá hafi þessi þróun verið að gerjast hjá okkur síðustu misseri.

Börn fyrir miklum áhrifum afþreyingar

„Hvað er að gerast? Hvers vegna eru börn allt í einu farin að bera vopn? Hvað er það sem að kallar á það að þau telji sig þurfa að bera vopn? Þetta lýsir klárlega einhverju óöryggi, þeim líður illa. Það er eitthvað sem bjátar á hjá börnum, hjá ungmennum sem telja sig þurfa að bera vopn og fara út á vettvang,“ segir hann og bætir við að það teljist ólíklegt að börn beri með sér vopn til að beita gegn hverjum sem er.

Að mati Helga líta börn á þetta sem mikilvægt úrræði til að verja sig. Síðan þegar að ungmenni eru komin í vissar aðstæður sem þau ráði ekki við sé vopnum beitt.

Helgi segir mikilvægt að líta einnig á dýpri ástæður fyrir því að ungmenni beri vopn og nefnir að börn verði fyrir miklum áhrifum frá því afþreyingarefni sem þau innbyrða. 

„Það eru kannski fyrirmyndir. Það geta verið fyrirmyndir úr menningargeiranum eða þess vegna erlendis frá eða innan frá, TikTok, samfélagsmiðlar sýna vopn og allt þetta. Það getur hugsanlega þótt kúl að bera vopn og einhvers konar status tákn og eitthvað slíkt. 

Ákveðin hugmyndafræði sem telur börnum trú um það að þetta sé réttlætanlegt eða sjálfsagt að einhverju leyti að bera þau en alls ekki til að nota þau. Vegna þess að það er svo erfitt þarna úti  og það eru alls konar krakkar og hópar sem ég óttast. Ég lít á þetta sem ákveðið óttamerki.“

Þurfi að kortleggja hvar þróunin eigi sér stað

Hann segir það brýnt að tala við börn um þetta umhverfi og þessa þróun sem er að eiga sér stað. Það komi einnig til greina að kortleggja hvar þessi þróun komi upp en Helgi bendir á að aðeins lítill hópur barna beri vopn.

„Þetta virðist vera hjá svona fimm til tíu prósent barna. Kannski meira drengir en stúlkur, sem eru að bera þessi vopn. Við þurfum kannski að kortleggja það félagslega umhverfi líka, hvað er að gerast í lífi þeirra. Þetta er svona fyrst og fremst ákveðin endurspeglun á vanlíðan og óöryggi sem við þurfum að taka alvarlega.“

Spurður hvort að fólk gangi lengra í ofbeldi í dag en áður segir Helgi að það séu mörg dæmi um það. Hann segir ákveðið hömluleysi einkenna mörg brot. Þegar bakgrunnur barna sem beita ofbeldi er kannaður kemur gjarnan í ljós að það er margt sem vantar í þeirra félagslega umhverfi og brotin saga að baki.

„Þá stíga menn út úr hefðbundna samfélaginu og eru raunverulega fastir í sinni eigin hugmyndafræði og eru kannski berskjaldaðir fyrir áhrifum utan frá sem geta verið tölvuleikir, TikTok eða menning sem tengist rappi og ofbeldismenningu. Menn ganga of langt og sérstaklega þegar það koma inn í þetta fíkniefni og dómgreindin slævist.“

Undirliggjandi spenna í samfélaginu

Hann segir undirliggjandi spennu einkenna samfélag okkar og að það brjótist út í ofbeldisverkum. Hann segir börn einnig finna fyrir erfiðleikum í efnahagslífinu í gegnum aðstandendur sína þó þau þurfi ekki að borga skuldir og annað slíkt.

„Áhrifin eru mest þegar að börnin eru berskjölduð og eru raunverulega ekki með fyrirmyndir eða ekki góðar fyrirmyndir og eru kannski smá afskiptalaus og vanrækt. Þessi börn eru kannski smá hráefni einmitt til þess að þessi menningaráhrif verði mjög mikil. Taka þetta beint inn á sig, ósíað.“

Lukkulega geri flest börn greinarmun á raunveruleika og óraunveruleika og leiða aldrei hugan að því að beita ofbeldi. Hann segir tíðarandann einkennast af ofbeldi og vísar í fréttaflutning af stríðshrjáðum löndum sem sýna óhugnanlegar myndir.

„Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið sýnt með jafn afgerandi hætti. Sem sagt hvað heimurinn er og getur verið mjög grimmilegur. Svo er þessu deilt áfram á samfélagsmiðlum. Þetta eru bara myndir sem sýna grimmilegan veruleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×