Erlent

Ný­­sjá­­lendingar þre­falda ferða­manna­gjaldið

Atli Ísleifsson skrifar
Hagtölur sýna að ferðaþjónustan á Nýja-Sjálandi hafi ekki aftur náð þeim stað sem hún var á fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar.
Hagtölur sýna að ferðaþjónustan á Nýja-Sjálandi hafi ekki aftur náð þeim stað sem hún var á fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Getty

Ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur ákveðið að þrefalda gjald sem ferðamenn þurfa að greiða við komu til landsins. Gjaldið fer úr 35 nýsjálenskum dölum í hundrað, sem jafngildir um þrjú þúsund íslenskum krónum í tæpar níu þúsund krónur.

Í frétt DW kemur fram að fulltrúar ferðaþjónustunnar þar í landi hafa lýst yfir miklum áhyggjum af þessari auknu gjaldtöku og telja þetta munu draga úr komu ferðamanna til landsins. Ferðaþjónusta er ein af lykilatvinnugreinum Nýja-Sjálands.

Breytingin mun taka gildi 1. október næstkomandi en með henni vilja stjórnvöld „tryggja að gestir leggi sitt af mörkum til opinberrar þjónstu og að reynsla þeirra af heimsókninni til Nýja-Sjálands verði af háum gæðum“.

Mikil umræða hefur átt sér stað í Nýja-Sjálandi um hvernig eigi að bregðast við miklum straumi ferðamanna og hvaða áhrif hann hafi á umhverfi og velferðarkerfi landsins.

Ráðherra ferðamála, Matt Dooce, segir að koma ferðamanna skipti miklu máli fyrir efnahag Nýja-Sjálands. Ferðamannastraumurinn hafi þó einnig áhrif á nærsamfélög og skapi aukinn þrýsting á alla innviði.

Nýsjálendingar kynntu ferðamannagjaldið til sögunnar árið 2019 en ráðherrann segir að upphæðin nú sé ekki nægilega há til að dekka kostnað sem hlýst af ágangi ferðamanna. Því hafi verið ákveðið að hækka gjaldið. Einnig komi til greina að hækka flugvallaskatta til að bregðast við stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×