Viðskipti innlent

Treble sækir tæpa tvo milljarða

Árni Sæberg skrifar
Stofnendur Treble, frá vinstri til hægri: Jesper Pedersen, Ingimar Andersen, dr. Finnur Pind og Gunnar Hauksson.
Stofnendur Treble, frá vinstri til hægri: Jesper Pedersen, Ingimar Andersen, dr. Finnur Pind og Gunnar Hauksson. Treble

Nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies, sem þróað hefur hugbúnað á sviði hljóðhermunar, lauk nýverið ellefu milljón evra A fjármögnunarlotu, jafnvirði 1,7 milljörðum króna, með þátttöku erlendra og innlendra fjárfesta. Fjármagnið verður nýtt til að ráða fleira starfsfólk, efla rannsóknar- og þróunarstarf, skala upp söluteymi og sækja á nýja markaði. Meðal viðskiptavina félagsins eru stærstu tæknifyrirtæki heims.

Í fréttatilkynningu þess efnis segir að fjármögnunarlotan hafi verið leidd af KOMPAS VC, sem sé leiðandi evrópskur vísisjóður sem sérhæfi sig í fjármögnun öflugra nýsköpunarfyrirtækja tengdum byggingar- og framleiðsluiðnaði. 

Aðrir fjárfestar sem tóku þátt í þessari lotu hafi verið fjárfestingafélag þeirra Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, Omega ehf, vísissjóðurinn Frumtak Ventures, sem hafi leitt síðustu fjármögnunarlotu Treble, Evrópska nýsköpunarráðið auk reyndra einkafjárfesta. Jafnframt hafi Saint-Gobain og L-Acoustics, sem séu samstarfsfyrirtæki Treble, tekið þátt í fjármögnuninni. Saint-Gobain sé eitt stærsta fyrirtæki Evrópu, sem framleiðir vörur og lausnir fyrir byggingar- og bílaiðnaðinn, og L-Acoustics sé stærsti hljóðkerfaframleiðandi heims.

Treble þrói hugbúnað sem hermir hegðun hljóðs með áður óþekktri nákvæmni og hraða. Lausnin geri viðskiptavinum kleift að herma og hanna hljóð í hvers kyns þrívíddarmódelum og er því sérstaklega gagnleg við hönnun bygginga, bíla og tæknivara. Með slíkri hermun sé hægt að meta hvernig ákveðin hönnun, hvort sem það er hönnun byggingar, bíls, heyrnartækis, sýndarveruleikagleraugna eða sjónvarps, svo dæmi séu tekin, komi til með að hljóma áður en framleiðsla hefst. Tækni Treble sé einnig nýtt til þjálfunar gervigreindar, til dæmis þjálfun raddstýringa, snjallhátalara og talgreiningar.

Alþjóðlegir risar nota tæknina nú þegar

Meðal viðskiptavina sem nýta tæknilausn Treble, sem kom á markað í fyrra, séu nokkur af stærstu og þekktustu fyrirtækjum heims á sviði tækni-, bygginga-, hljóð- og bifreiðaframleiðslu. Innan þeirra raða sé til dæmis stærsta verkfræðistofa heims, þrjú af fimm stærstu tæknifyrirtækjum í heimi og einn stærsti bifreiðaframleiðandi heims.

Hingað til hafi almennt verið kostnaðarsamt að hanna hljóð og hljóðvist. Það megi rekja til þess að ekki hafi verið til einföld, notendavæn og nákvæm hugbúnaðartól til að herma hljóð. Ef byggingar eða vörur uppfylla ekki nauðsynlega hljóðstaðla geti verið tímafrekt og kostnaðarsamt að gera óhjákvæmilegar lagfæringar eftir að hús hafa verið reist eða þegar vörur eru tilbúnar úr framleiðslu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi bent á að hávaði sé næstskaðlegasti umhverfisþátturinn sem hefur áhrif á heilsu manna. Það sé því mikilvægt að bregðast við þessum vanda.

Treble hafi verið stofnað árið 2020 af hljóðverkfræðingunum dr. Finni Pind og Jesper Pedersen, ásamt Ingimari Andersen hugbúnaðarverkfræðingi og Gunnari Haukssyni sérfræðingi í viðskiptaþróun. Rætur Treble liggi aftur til margra ára rannsóknarstarfs í háskólaumhverfinu á árunum fyrir 2020. Árið 2023 hafi fyrirtækið gefið út sína fyrstu vöru, sem sé sú fyrsta og eina sinnar tegundar í heiminum sem býður upp á hljóðhermun í skýinu. Hljóðhermunartækni Treble sé einkaleyfisvarin og meira en eitt hundrað sinnum hraðari en fyrri hljóðhermunarlausnir.

Stór áfangi

„Heimurinn gæti hljómað svo mun betur en hann gerir nú og það er gífurleg þörf á því að draga úr hávaðamengun. Markmið okkar hjá Treble er að bjóða upp á tólið sem gerir þessum mismunandi geirum – byggingum, bílum og tækni – kleift að hanna betri hljóðlausnir og draga úr hávaða. Það mun skila sér í bættri heilsu fólks, vellíðan og framleiðni. Lausnin okkar bætir líka upplifun fólks þegar það tengist öðrum í gegnum netið og stuðlar þannig að betri samskiptum og meiri tengingu milli fólks,“ er haft eftir dr. Finni Pind, stofnanda og framkvæmdastjóra Treble.

Fjármögnunarlotan sé stór áfangi fyrir Treble. Hún staðfesti stöðu félagsins sem leiðandi nýsköpunarfyrirtæki í hljóðgeiranum, sýni hvers megnugt Treble teymið sé og geri félaginu kleift að halda ótrautt áfram. 

„Við munum áfram vinna náið með samstarfsaðilum og viðskiptavinum okkar til að þróa framtíð hljóðs og skapa hljómbetri heim.“

Hlakka til að fylgjast með Treble

„Fjárfesting okkar í Treble er í takt við þá stefnu okkar að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru umhverfi. Að okkar mati er Treble brautryðjandi þegar kemur að hljóðhönnun með sinni nýstárlegu tækni. Lausn þeirra gerir það að verkum að hægt er að vinna að frumgerðum og prófa vörur á mun betri máta en áður. Fyrirtækið er að sækja fram á feykilega stóran markað. Við hlökkum til að fylgjast með Treble, og því hæfileikaríka starfsfólki sem þar starfar, halda áfram að slá rétta tóninn,“ er haft eftir Sebastian Peck, meðeiganda hjá KOMPAS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×