Innlent

Hættir sem borgar­full­trúi sósíal­ista

Kjartan Kjartansson skrifar
Trausti Breiðfjörð Magnússon náði kjöri sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórnarkosningunum 2022.
Trausti Breiðfjörð Magnússon náði kjöri sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórnarkosningunum 2022. Vísir/Arnar

Trausti Breiðfjörð Magnússon er hættur sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Hann hefur átt við veikindi að stríða síðasta árið og segist ætla að setja heilsuna í forgang. Andrea Helgadóttir tekur sæti Trausta í borgarstjórn.

Fyrrverandi borgarfulltrúinn greinir frá ákvörðuninni á Facebook-síðu sinni. Trausti segir hana ekki hafa verið auðvelda en að hann standi við hana.

Andrea Helgadóttir, nýr borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.Reykjavíkurborg

„Undanfarið ár hef ég verið að glíma við veikindi og því verið í leyfi til að setja heilsuna í forgang. Það hefur gengið vel og sem betur fer er heilsan á uppleið. Ég veit þó að ég get ekki snúið aftur til vinnu í borgarstjórn, þar sem mikillar orku og vinnuframlags er krafist. Það væri hvorki greiði gerður við mig, félaga mína í flokknum né borgarbúa að fá mig til starfa í því ástandi sem ég er í. Eftir mikla íhugun er þetta því niðurstaðan,“ segir í færslu Trausta.

Fram kemur í bréfi sem var lagt fyrir á síðasta fundi forsætisnefndar borgarinnar að veikindaleyfi Trausta hafi verið framlengt til 1. september. Trausti hafi farið í veikindaleyfi 13. nóvember. Borgarfulltrúar sem forfallist vegna veikinda eða slyss eigi rétt á fullum launum í allt að ár.

Trausti var annar tveggja borgarfulltrúa sem sósíalistar náðu inn í borgarstjórn í kosningunum 2022. Hann var síðasti maður sem náði inn. 

Andrea var þriðja á lista sósíalista fyrir kosningarnar. Á vefsíðu flokksins fyrir kosningarnar lýsti Andrea sér sem einstæðri móður í láglaunastarfi við leikskóla hjá Reykjavíkurborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×