Enski boltinn

Chelsea fær leyfi til að „redda sér“ með því að selja tvö hótel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Jackson fagnar marki sínu fyrir Chelsea. Félagið þarf að passa upp á reksturinn á næstunni.
Nicolas Jackson fagnar marki sínu fyrir Chelsea. Félagið þarf að passa upp á reksturinn á næstunni. Getty/Chris Lee

Enska úrvalsdeildin hefur gefið Chelsea grænt ljós á það að bæta rekstrarreikninginn sinn með því að selja tvö hótel til systurfélags.

Chelsea þarf að grípa til þessara aðgerða til að komast hjá því að brjóta rekstrarreglur ensku úrvalsdeildarinnar.

Samkvæmt nýjasta ársreikningi frá fjárhagsárinu 2022-23 kom í ljós að skuldir Chelsea jukust um 89,9 milljónir punda á því tímabili.

Þessi tala hefði verið mun hærri, um 166,4 milljónir punda, ef Chelsea hefði ekki fengið leyfi til að selja tvö hótel sem standa við hlið Stamford Bridge.

Þetta eru hótelin Millennium og Copthorne. Salan þýddi að hótelin fóru frá því að vera í eigu Chelsea FC Holdings Ltd í það að vera í eigu BlueCo 22 Properties Ltd. Bæði félögin eru dótturfyrirtæki eignarhaldsfélags Chelsea.

UEFA og enska knattspyrnusambandið banna slík viðskipti en enska úrvalsdeildin leyfir aftur á móti slíkt.

Enska úrvalsdeildin fór samt yfir söluna á hótelunum tveimur og vottaði það að söluverði væri eðlilegt og í takt við samskonar sölur á markaði. ESPN segir frá.

Chelsea hefur eytt stórum upphæðum í fjölmörg leikmannakaup á síðustu misserum og eru með langstærsta leikmannahópinn í deildinni. Það hefur vakið upp efasemdir að félagið haldi sér réttu megin við línuna þegar kemur að rekstrarreglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Þetta eru í það minnsta góðar fréttir en Chelsea þarf eflaust að grípa til fleiri aðgerða til að lenda ekki í refsingum í næstu framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×