Fótbolti

Amanda skoraði þegar Twente tryggði sér úr­slita­leik á móti Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amanda Andradóttir skoraði eitt af sjö mörkum hollenska liðsins Twente í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Amanda Andradóttir skoraði eitt af sjö mörkum hollenska liðsins Twente í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Getty/Joris Verwijst

Amanda Andradóttir mun mæta sínum gömlu félögum í Val í hreinum úrslitaleik um sæti í næstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Amanda og félagar í hollenska félaginu Twente unnu 7-0 stórsigur á Cardiff City í undanúrslitaleik sínum í kvöld en Valskonur unnu 10-0 stórsigur á Ljuboten fyrr í dag.

Amanda byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 67. mínútu í stöðunni 3-0.

Amanda skoraði síðan fimmta mark Twente átta mínútum eftir að hún kom inn í leikinn. Hún fiskaði síðan vítaspyrnuna sem gaf sjöunda markið.

Twente vann meistarakeppnina í Hollandi um síðustu helgi og þá kom íslenska landsliðskonan inn á völlinn og lagði upp mark.

Amanda er því að minna á sig með góðri innkomu í leikina. Það styttist því í byrjunarliðsleikinn og kannski kemur hann á móti Val.

Twente og Valur spila hreinan úrslitaleik á laugardaginn um sæti í næstu umferð en þessi riðill er spilaður á heimavelli Twente liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×