Enski boltinn

Heillaður af stráknum sem fór frá Chelsea til Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Rio Ngumoha er mættur til Liverpool og eru miklar vonir bundnar við hann í framtíðinni.
Rio Ngumoha er mættur til Liverpool og eru miklar vonir bundnar við hann í framtíðinni. Instagram@rio_ngumoha

Hinn 16 ára gamli Rio Ngumoha hefur þrátt fyrir ungan aldur verið til umfjöllunar í enskum fjölmiðlum eftir að hann ákvað að fara frá Chelsea til Liverpool.

Ngumoha, sem er kantmaður, hefur æft með unglingaakademíu Chelsea en hefur nú fært sig norður og þakkaði Chelsea fyrir sig, í stuttri færslu á Instagram.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano segir Liverpool-menn telja sig hafa nælt í algjört ofurhæfileikabúnt sem ætlað sé stórt hlutverk í framtíðinni. Lagt hafi verið fram myndarlegt tilboð eftir að Rio yfirgaf Chelsea.

Einn af þeim sem komið hafa að þjálfun Rio er gamla Chelsea-goðsögnin John Terry sem er sannfærður um ágæti leikmannsins unga.

„Þessi strákur er og verður algjör topp, toppleikmaður,“ skrifaði Terry í svari við færslu Romano á Twitter.

Rio var valinn maður mótsins í október í fyrra eftir að U16-lið Chelsea varð Englandsmeistari. Hann var færður upp í U21-lið félagsins í byrjun þessa árs.

Rio mun til að byrja með æfa og spila með U18-liði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×