Innlent

Nýnemaballi fimm skóla frestað

Árni Sæberg skrifar
Tækniskólinn er einn þeirra skóla sem standa að ballinu.
Tækniskólinn er einn þeirra skóla sem standa að ballinu. Vísir/Arnar

Sameiginlegu nýnemaballi fimm framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frestað vegna hnífstunguárásarinnar mannskæðu sem framin var á menningarnótt.

Í tölvupósti sem sendur hefur verið á alla nemendur í Fjölbrautarskólanum við Ármúla, Borgarholtsskóla, Tækniskólans, Fjölbrautarskólans í Breiðholti og Fjölbrautarskólans í Mosfellsbæ og forráðamenn þeirra segir að skólameistarar skólanna hafi ákveðið að fresta sameiginlegu nýnemaballi skólanna, sem halda átti þann 12. september. 

„Ástæða frestunarinnar er sá hörmulegi atburður sem átti sér stað á menningarnótt. Mikil sorg og vanlíðan ríkir í samfélaginu og eiga mörg um sárt að binda. Ekki er vilji fyrir því að halda viðburð sem þennan á vegum skólanna á þessum tímapunkti,“ segir í póstinum.

Þar er vísað til hnífstunguárásar sem framin var við Skúlagötu í Reykjavík á menningarnótt. Bryndís Klara Birgisdóttir, sautján ára, lést af sárum sínum í kjölfar árásarinnar. 

Nemendur fjölda framhaldsskóla hafa minnst Bryndísar Klöru með því að mæta í bleikum fötum í skólann undanfarið. Bleikur var uppáhaldslitur Bryndísar Klöru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×