Innlent

Flutninga­bíll með tengi­vagn fauk út af nærri Hólma­vík

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikið hvassviðri var við Hólmavík í gær og þessi flutningabíll fauk út af.
Mikið hvassviðri var við Hólmavík í gær og þessi flutningabíll fauk út af. Aðsend

Einn var fluttur til aðhlynningar læknis á Hólmavík í gær eftir að flutningabíll með tengivagn valt vegna mikils hvassviðris í um kílómetra fjarlægð frá Hólmavík. Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn segir ökumanninn hafa verið með minni háttar meiðsl.

„Hann fékk aðhlynningu á staðnum og var svo fluttur á Hólmavík til læknis.“

Hlynur segir fleiri bíla ekki hafa fokið út af vegi í gær en afar slæmt veður var á Vestfjörðum. Þó hafi verið tilkynnt um eitthvað fok á fiskikörum og öðru slíku.

„En engum trampólínum. Þau virðast vera kyrfilega fest niður núna,“ segir Hlynur.

Vegna vindsins rauk úr ám og lækjum og upp á veg.Aðsend

Greint var frá því í gær að þrjár skútur hefði rekið á land í hvassviðri á Ísafirði í gær. Björgunarsveitir voru kallaðar út víða á Vestfjörðum í gær.

„Það er dottið niður en það spáir einhverjum hvelli og úrkomu í kvöld. Það gætu verið Strandir og þar í kring en svo spáir hæglætisveðri það sem eftir er helgarinnar,“ segir Hlynur.


Tengdar fréttir

Amaði ekkert að ferðamönnum sem sendu neyðarboðin

Ekkert amaði að erlendum ferðamanni sem sendi neyðarboð úr neyðarskýli í Hlöðuvík fyrr í dag. Áhöfn varðskips Landhelgisgæslunnar komst í samband við ferðafólkið á tíunda tímanum í kvöld.

Skútur rekur á land í röðum

Þrjár skútur hefur rekið í land við Pollinn á Ísafirði það sem af er degi, eftir að hafa slitnað af legufærum í höfninni. Einni skútunni var komið í tog í morgun og bjargað en of slæmt er í sjóinn eins og er til að bjarga hinum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×