Íslenski boltinn

Þjálfari Stjörnunnar féll með til­þrifum

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhannes Karl Sigursteinsson féll um kippu af vatnsbrúsum í Keflavík í dag, í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar.
Jóhannes Karl Sigursteinsson féll um kippu af vatnsbrúsum í Keflavík í dag, í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar. Stöð 2 Sport

Stjarnan sá til þess að Keflavík félli niður í Lengjudeild kvenna í fótbolta í dag en þjálfari Stjörnunnar féll einnig, bókstaflega, með tilþrifum á meðan á leik stóð.

Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við Stjörnuliðinu í lok júní, nokkuð óvænt af Kristjáni Guðmundssyni, og endar með liðið í 7. sæti Bestu deildarinnar. Þar hefur liðið siglt lygnan sjó undanfarið en spilað við lið sem börðust fyrir lífi sínu. 

Í dag mætti Stjarnan Keflavík suður með sjó og komust Keflvíkingar í 3-0 með þrennu Melanie Rendeiro á fyrsta hálftímanum. Í stöðunni 3-1 fór boltinn út af vellinum og í innkast. 

Jóhannes Karl, eða Kalli eins og hann er kallaður, ætlaði að bregðast skjótt við og koma boltanum í leik, enda liðið hans undir. Það fór þó ekki betur en svo að hann hrundi um vatnsbrúsa sem lágu á grasinu, eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Jóhannes Karl féll um vatnsbrúsa

Kalli bar sig þó vel eftir fallið en grínaðist með það að þetta hlyti að „skrifast alfarið á Huldu“, og átti þá líklega við Huldu Björk Brynjarsdóttur liðsstjóra Stjörnunnar.

En skömmu eftir fallið skoruðu Stjörnukonur tvö mörk og leikurinn fór á endanum 4-4, sem þýddi að Keflavík var endanlega fallin úr deildinni.

Fylkiskonur féllu einnig í dag, eftir 3-0 tap gegn Tindastóli á Sauðárkróki.


Tengdar fréttir

Sjáðu mörkin sem felldu Fylki og Keflavík

Tindastóll spilar í Bestu deild kvenna í fótbolta þriðja árið í röð á næsta ári, eftir að hafa sent Fylki niður í Lengjudeildina í dag. Keflavík féll einnig, með 4-4 jafntefli við Stjörnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×