Innlent

Hundi haldið sofandi eftir am­feta­mín­eitrun

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hundurinn veiktist eftir að hafa verið á lausagöngusvæðinu við Geirsnef. Myndin af hundinum er úr safni og tengist frétt ekki beint.
Hundurinn veiktist eftir að hafa verið á lausagöngusvæðinu við Geirsnef. Myndin af hundinum er úr safni og tengist frétt ekki beint. Vísir/Vilhelm/Getty

Hundur sem fór á lausagöngusvæðið á Geirsnefi á föstudag liggur nú þungt haldinn eftir að hafa orðið fyrir amfetamíneitrun.

Fréttir af eitruninni birtust fyrst á Facebook-hópnum Hundasamfélaginu þar sem Guðfinna Kristinsdóttir, einn stjórnanda hópsins, bað hundaeigendur um að fara varlega við Geirsnef vegna hunds á neyðarvaktinni sem hafði fengið amfetamíneitrun eftir að hafa verið á svæðinu.

Um er að ræða rauðan míníature pinscher-hund sem fór með eigendum sínum á lausagöngusvæðið á föstudag. Allt virtist þó í himnalagi á meðan hundurinn var á sjálfu svæðinu. 

„Tíu mínútum eftir að þau eru farin byrjar hann að fá krampa og verður greinilega mjög veikur,“ segir Guðfinna Kristinsdóttir, stjórnandi Hundasamfélagsins. Eigendurna grunar því að hundurinn hafi komist í eitthvað á bílastæðinu.

 Fær stöðug krampaköst eftir eitrunina

„Hann fór þá upp á spítala og eigandi hundsins segir að hann hafi farið í blóðprufu. Þá hafi mælst amfetamín í blóðinu og þau telja það orsökina fyrir krampaköstunum. Honum hefur verið haldið í svæfingu nokkurn veginn síðan af því hann er í svo miklum krampaköstum,“ segir hún.

Er hann þá mjög þungt haldinn?

„Mér skilst að þetta sé mjög tvísýnt. Það á að reyna að sjá hvort það sé hægt að vekja hann aftur en ef hann fær sömu krampaköstin er bara tímaspursmál hvenær þarf að taka ákvörðun um það. En ég er ekki læknir þannig ég get ekki metið það sjálf,“ segir Guðfinna.

„Það er núna liðinn einn og hálfur sólarhringur þar sem hann hefur verið í svæfingu. Þegar þau hafa reynt að vekja hann hefur hann fengið það mikil krampaköst að dýralæknar mæla með að svæfa hann aftur niður,“ segir hún.

Aldrei heyrt af sambærilegu máli

Enn er margt óljóst í málinu, bæði nákvæmlega hvar hundurinn komst í ólyfjanin og hvers konar efni þetta voru.

„Þetta gætu verið ADHD-lyf sem hann borðaði, það er amfetamín-vatnsleysa í þeim. En ég get ekki sagt til um hvort þetta hafi verið eiturefni eða eitthvað tilfallandi sem inniheldur amfetamín-efni,“ segir Guðfinna og bætir við „Mér skilst að dýraspítalinn á Höfða, sem tók við honum fyrst, séu að taka saman upplýsingar og ætla að senda á lögregluna.“

Er amfetamíneitrun algeng?

„Nei, ég hef aldrei heyrt af þessu áður og er búinn að vera stjórnandi Hundasamfélagsins frá því það byrjaði 2012,“ segir Guðfinna.

Er þetta þá ólíkt öðrum eitrunartilfellum sem þið hafið heyrt af?

„Eitrunartilfelli sem við höfum heyrt af áður eru yfirleitt inni í görðum hjá fólki eða á almennum göngusvæðum og stígum. Mér skilst að það hafi yfirleitt verið rottueitur. Það er öðruvísi einkenni, þau eru blóðþynnandi,“ segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×