Danir komust yfir á 38. mínútu eftir frábæran einnar snertingar fótbolta, þegar hinn 23 ára gamli Albert Grönbæk skoraði, í sínum öðrum landsleik.
Enskir dómarar leiksins tóku sér góðan tíma í að skoða hvort að um rangstöðu væri að ræða en á endanum sáu þeir að ekkert var út á markið að setja.
Seinna mark Dana var svo algjört draumamark úr smiðju Yussuf Poulsen, sem skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu á 61. mínútu.
Danmörk hefur þar með byrjað Þjóðadeildina fullkomlega með tveimur sigrum, því liðið vann Sviss á fimmtudaginn. Svisslendingar taka á móti Spáni í þessum riðli síðar í kvöld, en Spánverjar gerðu markalaust jafntefli við Serba í fyrsta leik.
Danir eiga nú mjög góða möguleika á að komast í 8-liða úrslit Þjóðadeildarinnar en þangað fara tvö efstu lið riðilsins.