Íslenski boltinn

Hættur eftir tvö föll en ævin­lega þakk­látur Sel­fossi

Sindri Sverrisson skrifar
Björn Sigurbjörnsson hefur sagt skilið við Selfoss eftir þriggja ára starf.
Björn Sigurbjörnsson hefur sagt skilið við Selfoss eftir þriggja ára starf. vísir/Diego

Björn Sigurbjörnsson er hættur sem þjálfari meistaraflokks kvenna í fótbolta hjá Selfossi eftir þrjú erfið ár. Hann skilur við liðið eftir fall niður um tvær deildir.

Björn greinir frá þessu í færslu á Instagram í dag þar sem hann þakkar Selfyssingum fyrir afar lærdómsrík ár.

Björn og eiginkona hans, landsliðskonan fyrrverandi Sif Atladóttir, fluttu á Selfoss fyrir tímabilið 2022, eftir að hafa verið hjá Kristianstad í Svíþjóð þar sem Björn var aðstoðarþjálfari Elísabetar Gunnarsdóttur.

Starfið hjá Selfossi var því fyrsta aðalþjálfarastarf Björns og á fyrstu leiktíð endaði liðið í 5. sæti Bestu deildarinnar. Í fyrra endaði liðið hins vegar langneðst í deildinni, með aðeins ellefu stig í 21 leik, og eftir að hafa misst marga leikmenn á milli ára féll liðið svo einnig úr Lengjudeildinni í sumar, eftir að hafa endað þar í 9. sæti.

„3 ár er langur tími í lífi þjálfara, sérstaklega þegar gengið er erfitt. Þetta hafa verið ótrúlega lærdómsrík ár og ég er Ungmennafélaginu ævinlega þakklátur fyrir að hafa gefið mér mitt fyrsta aðalþjálfarastarf. 12 uppaldar stelpur hafa fengið sína fyrstu leiki í Íslandsmóti á þessum þremur árum, tækifærin eru öll þeirra,“ skrifar Björn á Instagram og bætir við:

„Ný ævintýri bíða, hver sem þau svo sem verða. Takk fyrir mig og mín Selfoss.“

Björn og Sif eru nú flutt í Laugarnesið í Reykjavík en óvíst er hvað tekur við hjá þeim. Sif, sem er 39 ára, tilkynnti fyrir ári að skórnir væru komnir upp í hillu en endaði á að spila 12 leiki í Lengjudeildinni í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×