Fótbolti

Dul­bjuggust sem Danir en það var ekki nóg

Sindri Sverrisson skrifar
Þessir stuðningsmenn voru ekki dulbúnir heldur gallharðir stuðningsmenn danska liðsins sem vann flottan sigur.
Þessir stuðningsmenn voru ekki dulbúnir heldur gallharðir stuðningsmenn danska liðsins sem vann flottan sigur. Getty/David Lidstrom

Kvöldið reyndist ansi dýrt fyrir þá 140 Serba sem ætluðu að lauma sér inn á Parken í kvöld, til að horfa á leik Danmerkur og Serbíu í Þjóðadeildinni í fótbolta.

UEFA setti serbneska stuðningsmenn í eins leiks útivallarbann eftir rasíska söngva þeirra á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar. Það bann gilti í Kaupmannahöfn í kvöld.

Samkvæmt Ekstra Bladet reyndu hins vegar um 140 stuðningsmenn Serba að komast inn á völlinn, og nokkrum þeirra tókst það.

Flestum þeirra, eða 125 manns, var hins vegar vísað í burtu þegar þeir sýndu miðana sína til að komast inn. Við það fór hluti hópsins og keypti sér danskar landsliðstreyjur, í von um að komast á leikinn með því að virðast vera stuðningsmenn Danmerkur.

„En það var búið að skanna miðana þeirra svo þeir komust auðvitað ekki inn á Parken, jafnvel þó að þeir væru í dönskum landsliðstreyjum,“ sagði Jakob Höyer, fjölmiðlafulltrúi danska knattspyrnusambandsins.

Serbarnir höfðu þar með keypt sér miða og danska landsliðstreyju, til einskis. Flestir þeirra, það er að segja.

Nokkrir komust inn á leikvanginn

Um 10-15 Serbar sluppu inn á leikvanginn og náðu að láta serbneska fánann blakta, og kyrja söngva, áður en öryggisgæslan mætti og kom þeim í burtu.

Höyer kveðst vongóður um að með þessu hafi danska sambandið staðist kröfur UEFA varðandi bann Serba.

Þó að serbnesku stuðningsmennirnir fengju ekki að njóta leiksins þá voru 125 Serbar leyfðir í VIP-stúkunni á Parken. Um þá giltu önnur lögmál.

Danir voru mun betri í leiknum sjálfum og unnu þægilegan 2-0 sigur með mörkum frá Albert Grönbæk og Yussuf Poulsen, sem skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×