Sú litla var að leik á túni við sveitabæinn í Svorkmo í Orkland í Þrændalögum. Faðir stelpunnar lýsir því að örninn hafi birst skyndilega og náð taki á stelpunni. Móðirin hafi brugðist hratt við, gripið í örninn og þurft að taka á öllu sínu í baráttunni. Nágranni lagði hönd á plóg, að sögn föðurins.
Faðirinn segir stúlkunni heilsast vel miðað við aðstæður.
„Það þurfti að sauma nokkur spor aftan á höfuðið og það eru för eftir klær arnarins undir hálsinum og á andliti hennar,“ segir faðirinn í samtali við NRK. Bæði börn og fullorðnir hafi verið að leik á túninu þegar örninn lét til skarar skríða.
Faðirinn segir árásina hafa verið mikið áfall fyrir móðurina og eldri systkini barnsins sem fylgdust með. Faðirinn var ekki á svæðinu.
Örninn var mjög árásargjarn og lét sér ekki segjast þegar móðirin barðist við hann. Nágranni sló til arnarins með priki en örninn gafst ekki upp. Að lokum var örninn aflífaður. Hann var ungur að árum.