Fyrir rúmum tveimur árum skipaði mennta- og barnamálaráðherra stýrihóp sérfræðinga sem var falið að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda eða miklar þroska- og geðraskanir. Þá var hópnum falið að endurskoða fyrirkomulag úrræða og þjónustu. Hópurinn skilaði af sér skýrslu með tillögum fyrir rúmu ári, sem virðist hafa legið ofan í skúffu síðan.
Málið strandar á fjármögnun að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, sem átti sæti í stýrihópnum. Hún segir bæjarstjóra í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóra hafa óskað eftir fundi með ráðherrum sem málaflokkurinn heyrir undir.
„Við bíðum bara eftir þeim fundi en viljum leggja áherslu á að þessi skýrsla verði tekin upp og að unnið verði eftir henni,“ segir Regína.
Tugir á biðlista
Samkvæmt kortlagningu hópsins þurftu 127 börn á úrræðum að halda þegar skýrslan var unnin. Hluti þeirra var þegar í þjónustu en tugir á biðlista.
Í skýrslunni eru lögð til nokkur úrræði en Regína leggur sérstaka áherslu á eitt þeirra; stigskiptan búsetukjarna þar sem börn gætu fengið þjónustu eftir þörfum.
„Við gætum verið þar með mismunandi hópa en samnýtt starfsfólk og værum með eitt til tvö börn í hverri einingu þó þetta væri samrekið. Þetta eru þá börn með mjög alvarlegan geð- og þroskavanda og tengslaröskun,“ segir Regína og bætir við undir þennan hóp falli börn sem eru sum hver vistuð í einkareknum úrræðum í dag, líkt og í Klettabæ og Vinakoti. Þess fyrir utan þurfi einnig að huga að ósakhæfum börnum sem þurfi vistun vegna alvarlegra afbrota.
Þjónusta við hópinn er í skýrslunni sögð vera brotakennd, dreifð og flókin. Regína segir að með búsetukjarna sem þessum yrði til þekking í málaflokknum á einum stað. „Þarna held ég að sé afar brýnt að við komum upp miðlægri þjónustu og þekkingu sem hægt er að miðla. Við teljum að það þurfi að gera betur og að það þurfi að leysa úr þessum hnút sem fjármögnunin er,“ segir Regína.