Erlent

Þjóð­verjar herða tökin á landa­mærum

Árni Sæberg skrifar
Staða Olafs Scholz er ekki góð.
Staða Olafs Scholz er ekki góð. Maryam Majd/Getty

Ríkisstjórn Þýskalands tilkynnti í dag að tímabundið landamæraeftirlit verði tekið upp til þess að stemma stigu við fólksflutningum til landsins og hryðjuverkaógn.

Í tilkynningu innanríkisráðuneytisins segir að eftirlitið muni hefjast þann 16. september næstkomandi og vara í sex mánuði til að byrja með. „Við erum að efla innra öryggi og halda áfram baráttu okkar gegn óeðlilegum fólksflutningum,“ er haft eftir Nancy Faeser innanríkisráðherra.

Öfgahægrið græðir á vandanum

Í frétt Reuters segir að Þjóðverjar hafi tekið upp harðari stefnu í innflytjendamálum undanfarin ár og að frjálslynd ríkisstjórn Olafs Scholz eigi í mestu erfiðleikum með málaflokkinn á meðan hægrimenn í Valkosti fyrir Þýskaland, AfD, stórgræða á honum.

AfD varð á dögunum fyrsti flokkurinn lengst á hægri ásnum til þess að vinna kosningar í sambandslandi í Þýskalandi frá seinna stríði. Þá vann flokkurinn stórsigur í Þýsingalandi undir stjórn hins umdeilda Björns Höcke.

Fjöldi landa undir

Tilkynning ríkisstjórnarinnar vekur athygli, ekki síst vegna þess að kosningar fara fram víða í sambandlöndum Þýskalands þessa dagana og staða Sósíalistaflokks Scholz er ekki góð.

Þá er ekki langt um liðið frá því að hryðjuverkaárás var framin í borginni Solingen. Þrír létust árásinni og átta særðust. Sýrlenskur karlmaður á þrítugsaldri hefur játað að hafa framið árásina og Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á henni.

Talið er að ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem er ekki síst tekin í ljósi hryðjuverkaógnar, geti haft áhrif á evrópskt samstarf, sem hefur átt undir högg að sækja undanfarið.

Þannig hefur innanríkisráðherra Austurríkis, Gerhard Karner, þegar tilkynnt að Austurríkismenn muni ekki taka á móti neinum sem Þýskaland hleypir ekki yfir landamæri sín.

Þýskaland á landamæri að Danmörku, Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Frakklandi, Sviss, Austurríki, Tékklandi og Póllandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×