Fótbolti

Lögregluverkfall kemur niður á Kristian og fé­lögum í Ajax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson og félagar í Ajax fá enn lengra landsleikjahlé eftir að leik liðsins um helgina var frestað.
Kristian Nökkvi Hlynsson og félagar í Ajax fá enn lengra landsleikjahlé eftir að leik liðsins um helgina var frestað. Getty/Rico Brouwe/Alexander Koerner

Hollenska knattspyrnufélagið Ajax þarf að fresta næsta leik liðsins vegna verkfallsaðgerða Amsterdam lögreglunnar.

Kristian Nökkvi Hlynsson og félagar í Ajax áttu að mæta Utrecht næstkomandi sunnudag þegar deildirnar fara aftur af stað eftir landsleikjahlé. Sá leikur verður að fara fram seinna.

Málið er að þetta er annar leikurinn í röð sem Ajax getur ekki spilað vegna aðgerða lögreglumanna. Leik liðsins á móti Feyenoord 1. september síðastliðinn var einnig frestað vegna verkfallsaðferða lögreglumanna í Rotterdam.

„Öryggi leikmanna, stuðningsmanna og almenningsrýmis getur ekki verið tryggt án aðstoðar lögreglunnar,“ segir í tilkynningu.

Það kom til greina að láta leikinn fara fram fyrir framan tómar áhorfendastúkur en á endanum fannst mönnum það ekki heldur vera öruggt án aðstoðar lögreglumanna.

Ajax menn segjast mjög vonsviknir með þessa þróun mála. Félagið segist líka sannfært um það að leikurinn gæti farið fram ef ákveðnum öryggisaðgerðum yrði fylgt og með góðu samkomulagi milli félagsins og stuðningsmanna þess.

Það eru oft mikil læti í kringum fótboltaleiki í Hollandi og því þarf þessi leikur að fara fram þegar lögreglumenn eru ekki í verkfall.

Ajax hefur aðeins leikið tvo deildarleiki þegar flest önnur lið hafa spilað fjóra. Liðið hefur líka bara unnið annan þeirra og situr eins og er i tólfta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×