Enski boltinn

Á­fall fyrir Arsenal rétt fyrir rosa­lega viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard fann vel fyrir þessu eins og sjá má hér. Norðmenn kláruðu leikinn án hans en svo er að sjá hvað Arsenal liðið gerir missi hann af næstu leikjum.
Martin Ödegaard fann vel fyrir þessu eins og sjá má hér. Norðmenn kláruðu leikinn án hans en svo er að sjá hvað Arsenal liðið gerir missi hann af næstu leikjum. Getty/Mateusz Slodkowski

Martin Ödegaard kemur ekki heill úr þessum landsleikjaglugga. Fyrirliði Arsenal meiddist í leik Norðmanna og Austurríkismanna í Þjóðadeildinni í gærkvöldi.

Það er líklegt að Arsenal verði án eins síns besta leikmanns í næstu leikjum og næst á dagskrá er einmitt nágrannaslagurinn við Tottenham um næstu helgi.

Ödegaard var augljóslega sárþjáður og hélt fyrir andlit sitt eftir að hann meiddist á vinstri ökkla. Ödegaard virtist snúa ökklann á sér eftir tæklingu frá austurríska miðjumanninum Christoph Baumgartner. ESPN segir frá.

Ödegaard reyndi að halda áfram en haltraði af velli tveimur mínútum síðar. Erling Haaland kom til hans og reyndi að hughreysta fyrirliða sinn sem var mjög svekktur.

„Meiðsli Martins Ödegaard litu líka illa út í búningsklefanum. Hann sat með sjúkraþjálfarana í kringum sig en það var enginn möguleiki fyrir hann að halda áfram. Við vitum að þetta var ökklatognun,“ sagði Stale Solbakken, þjálfari norska liðsins við TV2.

„Þetta er vissulega tognun en við sem höfum spilað fótbolta vitum að þetta getur verið minniháttar ef heppnin er með þér og liðböndin eru ekki slitin,“ sagði Solbakken.

Læknir norska liðsins vildi meina að þetta væri ekki mjög alvarleg tognun en að leikmaðurinn þurfi að fara í myndatöku til að þeir viti meira. Hann viðurkenndi samt að það væri erfitt að greina þetta almennilega fyrr en að bólgan hefur hjaðnað og þeir hafa séð myndir af ökklanum.

Arsenal spilar við Tottenham næsta sunnudag og það er vitað að Declan Rice verður ekki með þar sem hann er í leikbanni. Svo tekur við Meistaradeildarleikur við Atalanta og svo toppslagur við Manchester City 22. september. Rosaleg vika framundan og Arsenal mögulega án fyrirliðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×