Erlent

Ætla í fyrstu borgara­legu geimgönguna

Samúel Karl Ólason skrifar
Dragon-geimfar SpaceX, eftir að það losnaði frá öðru stigi eldflaugarinnar sem bar farið á braut um jörðu.
Dragon-geimfar SpaceX, eftir að það losnaði frá öðru stigi eldflaugarinnar sem bar farið á braut um jörðu. SpaceX

Starfsmenn SpaceX skutu í morgun fjórum borgurum af stað á braut um jörðu. Geimferð þessi nefnist Polaris Down og ætla geimfararnir meðal annars að fara í fyrstu borgaralegu geimgönguna.

Geimfararnir munu einnig gera tilraunir með Starlink gervihnattanetið og kanna hvernig það virkar út í geimnum, auk þess sem þau munu eiga í ýmsum öðrum vísindarannsóknum á braut um jörðu.

Dragon geimfarið sem notað er í Polaris Dawn hefur áður verið notað til að senda geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og til að senda borgaralega geimfara í Inspiration4 á braut um jörðu.

Sjá einnig: Vildi sýna að venjulegt fólk gæti farið út í geim

Jared Isaacman leiðir förina, en með honum eru þau Kidd Poteet, Sarah Gillis og Anna Menon en þær tvær síðastnefndu starfa fyrir SpaceX. Isaacman leiddi einnig Inspiration4 og fjármagnaði báðar geimferðirnar.

Markmið þessara áhugageimfara er að fara á hæstu sporbraut frá því Apollo-ferðunum var hætt og að fara í fyrstu borgaralegu geimgönguna. Notast verður við sérstaka geimbúninga sem starfsmenn SpaceX hafa þróað til geimgöngunnar.

Til stendur að fara í geimgönguna þann 12. september.

Upprunalega stóð til að skjóta geimförunum á loft í ágúst en það gekk ekki eftir. Nokkrum öðrum tilraunum var svo frestað vegna veðurs. Geimskotið í morgun virðist þó hafa heppnast vel, þrátt fyrir að veður kom í veg fyrir að hægt væri að skjóta geimfarinu af stað þegar skotglugginn svokallaði opnaðist fyrst.

Hægt er að fylgjast með staðsetningu Dragon-geimfarsins hér á vef SpaceX.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×