Erlent

Bar­áttan um Banda­ríkin: Sögu­legar kapp­ræður gerðar upp

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason fréttamenn munu fara yfir kappræður næturinnar í beinni útsendingu.
Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason fréttamenn munu fara yfir kappræður næturinnar í beinni útsendingu. Vísir/Vilhelm

Kamala Harris og Donald Trump mættust í gærkvöldi í sínum fyrstu, og mögulega einu, kappræðum fyrir forsetakosningarnar 5. nóvember næstkomandi. Kappræðurnar verða krufnar til mergjar í Baráttan um Bandaríkin í beinni útsendingu á Vísi klukkan 13.

ATH: Útsendingin höktir í spilaranum að neðan. Hún er hins vegar í lagi í sjónvarpinu á Stöð 2 Vísi. Við biðjumst velvirðingar á þessu. Upptaka í þættinum lendir hér á Vísi þegar útsendingu er lokið.

Greinendur vestanhafs eru flestir á því að Harris hafi haft sigur en hún kom ítrekað höggi á Trump og hrakti hann í vörn á meðan honum hefur ekki enn tekist að finna höggstað á andstæðingi sínum.

Harris mætti augljóslega undirbúin og var nokkuð „æfð“ til að byrja með, á meðan Trump var Trump og hjólaði beint í það mál sem hann og varaforsetaefnið hans J.D. Vance hafa hamrað á; ólöglega innflytjendur og glæpi.

Trump fór mikinn; sagði hælisleitendur drepa og éta gæludýr, kallaði Harris „Marxista“ og sakaði Demókrata um að vilja heimila þungunarrof fram eftir meðgöngu og jafnvel eftir fæðingu. Harris sagði Trump á móti meðfærilegan lepp einræðisherra og að menn væru orðnir þreyttir á ræðum hans um Hannibal Lecter.

Efnahagsmál, útlendingamál, heilbrigðismál og ýmislegt fleira var til umræðu. Mikið er í húfi en forsetaefnin eru svo til jöfn í skoðanakönnunum, bæði á landsvísu og í barátturíkjunum svokölluðu.

Harris varð að standa sig vel í kappræðunum, bæði vegna fyrri frammistöðu og í kjölfar kappræðna Trump og Joe Biden, sem urðu til þess að forsetinn neyddist til að stíga til hliðar fyrir Harris.

En hversu miklu máli skipta úrslit kappræðanna þegar kemur að fylgi?

Kappræðurnar, staðan og framhaldið í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 13, þar sem Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason fréttamenn fara yfir málin.


Tengdar fréttir

Utanríkismálin meira áberandi og Pennsylvanía í brennidepli

„Við sem erum í alþjóðastjórnmálum erum yfirleitt mjög sár yfir því að fólk kýs ekki út á utanríkismál,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, í umræðum um forsetakosningarnar vestanhafs í nýjum þætti af Baráttan um Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×