Erlent

Daun­ill þróun í metan­losun mann­kynsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Metan losnar meðal annars þegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í ruslahaugum eins og þessum í Jakarta á Indónesíu.
Metan losnar meðal annars þegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í ruslahaugum eins og þessum í Jakarta á Indónesíu. AP/Tatan Syuflana

Losun gróðurhúsalofttegundarinnar metans hefur aldrei aukist hraðar en um þessar mundir þrátt fyrir loforð ríkja um að koma böndum á hana. Hún er sögð auka hættuna á að hnattræn hlýnun fari umfram þau mörk sem mannkynið hefur sett sér.

Metan er enn öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur til skemmri tíma litið. Það fangar um þrjátíu prósent meiri hita yfir hundrað ára tímabil. Uppsprettur þess sem tengjast athöfnum manna er meðal annars búfénaður og kola- og gasvinnsla.

Niðurstöður hóps vísindamanna undir merkjum Hnattræna kolefnisverkefnisins (e. Global Carbon Project) benda til þess að styrkur metans í lofthjúpnum hafi aldrei aukist svo hratt í mælingasögunni og hann sé nú í samræmi við svartsýnustu sviðsmyndir um losun manna á gróðurhúsalofttegundum.

Metanlosun manna hafi aukist um allt að fimmtung frá 2000 til 2020 og nemi nú um þriðjungi af heildarlosun manna á gróðurhúsalofttegundum, samkvæmt skýrslu hópsins sem hefur enn ekki verið ritrýnd, að sögn Washington Post.

Aukningin er að mestu rakin til stækkandi urðunarstaða, vaxandi búfjárræktunar og kolavinnslu og stóraukinnar neyslu á jarðgasi.

Aðeins ESB náð árangri sem munar um

Í annarri ritrýndri rannsókn sem vísindamenn hópsins birtu í Environmental Research Letters kemur fram að litlar vísbendingar séu um að 150 ríki sem hétu því að draga úr losun metans um þrjátíu prósent fyrir lok áratugsins hafi staðið við þau loforð.

Þess í stað benda gervihnattamælingar til þess að metanlosun hafi aukist um fimm prósent frá 2020 til 2023, aðallega í Kína, sunnanverðri Asíu og í Austurlöndum nær. Aðeins Evrópusambandið af mestu stórlosendum heims hafi dregið úr metanlosun sinni svo einhverju nemi á undanförnum tveimur áratugum.

„Þessi viðbótarmetanlosun færir hlýnunarmörk sífellt nær. Hlýnin sem var áður talin óhugsandi er núna mögulega líkleg,“ segir Rob Jackson, loftslagsvísindamaður og formaður Hnattræna kolefnisverkefnisins.

Athuganir Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) sýna að styrkur metans í lofthjúpi jarðar hafi meira en tvöfaldast frá upphafi iðnbyltingarinnar og að hann hafi ekki verið hærri í að minnsta kosti 800.000 ár.

Vísindamennirnir telja að samdráttur í losun metans sé auðveldasta og ódýrasta leiðin til þess að fyrirbyggja frekari hlýnun strax á meðan unnið er að því að koma böndum á losun koltvísýrings. Á sama hátt geti óheft losun metans hins vegar fleytt mannkyninu sífellt nær því að fara fram yfir þau hlýnunarmörk sem það hefur ákveðið að það geti fellt sig við samkvæmt Parísarsamkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×