Erlent

Sprengdu yfir­gefinn skýja­kljúf í Lousiana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Íbúar Lake Charles-borgar fylgjast með Hertz-turninum falla.
Íbúar Lake Charles-borgar fylgjast með Hertz-turninum falla. AP

Yfirgefinn tuttugu og tveggja hæða skýjakljúfur í Lake Charles í Lousiana var sprengdur í loft upp eftir að hafa staðið auður í næstum fjögur ár. Hertz-turninn hefur orðið að táknmynd eyðileggingarinnar sem fellibylirnir Laura og Delta ullu.

Turninn féll á aðeins nokkrum sekúndum eftir að hópur sprengjusérfræðinga sprengdi röð sprengja inni í honum. Eftir fallið myndaðist fimm hæða ryk- og brakhaugur. Sjá má myndband af sprengingunni hér fyrir neðan.

Byggingin sem áður kallaðist Capital One Tower hafði verið einkennandi partur af sjóndeildarhring borgarinnar í rúmlega fjóra áratugi. Turninn fór hins vegar afar illa út úr röð fellibylja sem herjuðu á suðvesturhluta Louisiana árið 2020. Fjöldi rúða sprakk og stór hluti suðvesturhliðar turnsins eyðilagðist.

Lofuðu að gera við turninn

Eigendur byggingarinnar, fasteignafélagið Hertz Investment Group, lofuðu í mörg ár að gera við bygginguna um leið og þeir væru búnir að gera upp við tryggingarfélagið sitt, Zurich. Talið var að kostnaður við að gera upp bygginguna væri 167 milljónir Bandaríkjadala. Á endanum sættust aðilarnir tveir á óuppgefna upphæð og ekkert varð af viðgerðunum.

Sprenging turnsins kostaði sjö milljónir Bandaríkjadala og var fjármögnuð með einkaframtaki sem borgin tryggði. Hertz eru enn eigendur lóðarinnar og er ekki ljóst hvað verður um hana. 

Bæjarstjórinn Nic Hunter sagði sprengingu turnsins vera súrsæta. Borgin hafi reynt hvað hún gat til að bjarga turninum með ýmsum aðilum en það hafi á endanum reynst of erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×