Erlent

„Læri­sveinn“ Pélicot sagður hafa beitt sömu að­ferðum á eigin konu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Beatrice Zavarro, lögmaður Pélicot, í dómshúsinu.
Beatrice Zavarro, lögmaður Pélicot, í dómshúsinu. AP/Lewis Joly

Dómarar í Avignon í Frakklandi hlýddu í gær á frásögn af því hvernig „lærisveinn“ Dominique Pélicot notaði sömu aðferðir og Pélicot til að byrla eiginkonu sinni og nauðga.

Pélicot, 71 árs, hefur verið ákærður fyrir að byrla fyrir eiginkonu sinni Giséle og nauðga henni og fyrir að hafa sett sig í samband við tugi manna á netinu sem hann leyfði einnig að nauðga Giséle.

Réttarhöld yfir Pélicot standa yfir en hann hefur ekki enn borið vitni sökum veikinda.

Í gær fengu viðstaddir hins vegar að heyra hvernig maður að nafni Jean-Pierre, 63 ára flutningabílstjóri, hefði kynnst Pélicot í netspjalli sem bar yfirskriftina „Án hennar vitneskju“. 

Jean-Pierre er ekki grunaður um að hafa nauðgað Giséle en er hins vegar sagður hafa fengið lyf hjá Pélicot til að byrla fyrir eiginkonu sinni. Þá hafi bæði hann og Pélicot nauðgað konunni.

Pélicot er sagður hafa séð Jean-Pierre fyrir efnunum að minnsta kosti fjórum sinnum en talið er að konunni hafi verið nauðgað tólf sinnum á árunum 2015 til 2020.

Jean-Pierre er sagður hafa játað sök en eiginkona hans hefur ákveðið að halda sig utan málsins til að vernda börnin þeirra fimm. Sonur Jean-Pierre af fyrra hjónabandi segist sannfærður um að faðir sinn hafi verið á valdi Pélicot og að brotin hefðu aldrei átt sér stað ef þeir hefðu ekki kynnst.

Átján af þeim 50 mönnum sem grunaðir eru um að hafa brotið gegn Giséle sitja í gæsluvarðhaldi. Flestir eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×