Lífið

Lista­menn skora á Sam­herja að falla frá mál­sókn gegn ODEE

Lovísa Arnardóttir skrifar
Afsökunarbeiðnin var einnig málið á vegg í Listasafni Íslands. Á myndinni stendur Oddur fyrir framan verkið.
Afsökunarbeiðnin var einnig málið á vegg í Listasafni Íslands. Á myndinni stendur Oddur fyrir framan verkið. Vísir/Vilhelm

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna lýsir yfir eindregnum stuðningi við baráttu gjörningalistamannsins Odds Eysteins Friðrikssonar, ODEE, fyrir tjáningarfrelsi sínu. Bandalagið skorar á Samherja að falla frá málsókn sinni gegn Oddi. Þá skora þau einnig á fyrirtækið að virða tjáningarfrelsið.

Samherji höfðaði mál gegn Oddi eftir að hann opnaði vefsíðu undir nafni fyrirtækisins og birti þar afsökunarbeiðni í þeirra nafni. Vefsíðan var hýst af breskum vefþjóni og því eru málaferlin rekin í Bretlandi. 

Í maí var greint frá því að Oddi hefði verið gert að taka niður vefsíðuna samherji.co.uk sem hýsti gjörning hans „We‘re sorry“ í kjölfar þess að fyrirtækið fékk bráðabirgðalögbann á síðuna. Þá var honum einnig gert að afhenda Samherja lénið.

Sjá einnig: Odee sætir lög­banni í Bret­landi og þarf að af­henda Sam­herja verk sitt

We're Sorry var útskriftarverkefni Odds við Listaháskóla Íslands en um var að ræða skáldaða afsökunarbeiðni Samherja vegna framgöngu fyrirtækisins í Namibíu, þar sem það hefur meðal annars verið sakað um mútugreiðslur til stjórnmálamanna.

Ekki á vegum Samherja

Fyrst var fjallað um gjörninginn í fréttum þann 11. maí. Upplýsingafulltrúi Samherja greindi þá frá því að vefsíðan væri ekki á þeirra vegum og að þau hefðu óskað þess að hún yrði tekin niður.

„Þetta er fölsk síða sem er engan veginn á okkar vegum og fréttatilkynning sem send var út í gegnum þessa fölsku heimasíðu tengist Samherja á engan hátt,“ sagði Karl Eskil Pálsson upplýsingafulltrúi í samtali við Vísi.

Nokkrum dögum síðar kom í ljós að um væri að ræða útskriftarverkefni Odds Eysteins, eða Odee.

„Namibía á skilið afsökunarbeiðni frá okkur. Öll íslenska þjóðin gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni, vill gera betrumbót og leitast eftir fyrirgefningu. Þetta er afsökunarbeiðni frá öllu Íslandi, ekki bara Samherja, þar sem við höfum saman leyft þessu arðráni að gerast,“ sagði hann í tilkynningu sem hann sendi þá út um verkefnið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×