Upp­gjörið: Þróttur - Breiða­blik 1-4 | Auð­velt hjá toppliðinu

Hjörvar Ólafsson skrifar
8O0A0624
vísir/Diego

Topplið Breiðabliks vann öruggan 4-1 sigur á Þrótti Reykjavík í Bestu deild kvenna í fótbolta og heldur þar með í toppsætið. Liðið er með eins stigs forystu á Val á toppi deildarinnar og stefnir í æsispennandi lokaumferðir.

Leikurinn var liður í annarri umferð af fimm í keppni sex efstu liða deildarinnar.

Fyrstu tvo mörk Breiðabliks, sem komu um miðjan fyrri hálfleik voru keimlík. Blikar sluppu upp hægri vænginn, fengu mikinn tíma og pláss til þess að athafna og kláruðu færin með góðum skotum.

Í fyrra skiptið var það Samantha Rose Smith sem fann Karítas Tómasdóttur inni á vítateig Þróttar. Þegar Breiðablik tvöfaldaði síðan forystu sína geystist Barbára Sól upp kantinn og lagði boltann á Andreu Rut Bjarnadóttur, sem skoraði gegn uppeldisfélagi sínu.

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir bætti svo þriðja marki Breiðabliks við þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Hrafnhildur Ása, sem kom inná sem varamaður í leiknum fékk þá sendingu frá öðrum varamanni, Jakobínu Hjörvarsdóttur. Hrafnhildur setti boltann í netið með huggulegu skoti sem rataði upp í samskeytin.

Samantha rak svo síðasta naglann í líkkistu Þróttar þegar hún kórónaði góðan leik sinn í uppbótartíma leiksins með snotru marki sínu. Samantha vippaði boltann þá laglega yfir Mollee Swift í marki Þróttar.

Breiðablik hefur áfram eins stigs forskot á Val á toppi deildarinnar en Valur sótti þrjú norður yfir heiðar á móti Þór/KA fyrr í kvöld. Allt útlit er fyrir að úrslitin á Íslandsmótinu muni ráðast þegar Breiðablik og Valur mætast í lokaumferð deildarinnar.

Atvik leiksins

Þróttarar voru ekki sáttir þegar um það bil tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Þá var Freyja Karín Þorvarðardóttir ein í gegnum vörn Breiðabliks. Elín Helena Karlsdóttir virtist fella Freyju Karín sem fell við.

Bríet Bragadóttir, dómari leiksins, lét sér fátt um finnast og lét leikinn halda áfram. Það hefði mögulega breytt þróun leiksin hefði Þróttur leikið einum leikmanni fleiri lungann úr leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Samantha var hættuleg í framlínu Breiðabliks og lagði upp fyrra mark Blika og skoraði annað. Þess utan skapaði hún fjölmörg færi fyrir sjálfa sig og samherja sína.

Agla María Albertsdóttir og Karítas voru öflugar inni á miðsvæðinu og tengdu þær báðar spilið vel milli varnar og sóknar. Barbára Sól átti góðan leik í hægri bakverðinum bæði í varnarleik sem og sóknaleiknum.

Hjá Þrótti var Ísabella Anna Húbertsdóttir iðin við að reyna að skapa usla í vörn Breiðabliks. Álfhildur Rósa Kjartansdóttir var svo öflug inni á miðsvæðinu hjá heimakonum.

Dómarar leiksins

Bríet Bragadóttir og teymið hennar átti heldur náðugan dag en svo virtist þó sem Bríet hafi gert afdrifarík mistök þegar Elín Helena nartaði í hæla Freyju Karínar. Af þeim sökum lækkar einkunn Bríetar niður í sjö.

Stemming og umgjörð

Það var fín stemming í blíðskaparveðri í Laugardalnum. Ágætlega mætt af bæði Þrótturum og Blikum. Allar aðstæður til knattspyrnuiðkunar eins og best verður á kosið í fallegu vallarstæði Þróttara.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira