Rashford braut ísinn og United sneri slakri byrjun í þægi­legan sigur

Matthijs de Ligt fagnar marki sínu en hann kom Manchester United í 1-0 í dag.
Matthijs de Ligt fagnar marki sínu en hann kom Manchester United í 1-0 í dag. Getty/Ryan Hiscott

Manchester United endaði tveggja leikja taphrinu með nauðsynlegum sigri í hásdegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

United menn mættu til Southampton og unnu 3-0 sigur á heimamönnum. United lék síðustu ellefu mínúturnar manni fleiri.

Það leit þó ekki út fyrir að þetta ætlaði að vera góður dagur fyrir lærisveina Erik ten Hag í Manchester United.

Southampton menn voru miklu betri fyrsta hálftíma leiksins og þeir fengu síðan vítaspyrnu á 32. minútu. André Onana varði vítið og kveikti í sínum mönnum.

United var komið í 2-0 aðeins tólf mínútum síðar.

Fyrra markið skoraði Matthijs de Ligt á 35. mínútu með skalla eftir sendingu frá í kjölfarið á stuttri hornspyrnu.

Marcus Rashford skoraði síðan sitt fyrsta mark á tímabilinu þegar hann kom United í 2-0 á 41. mínútu. Markið skoraði hann með lúmsku skoti fyrir utan teig.

Þetta var mjög langþráð mark hjá Rashford, ekki aðeins fyrsta markið á tímabilinu heldur einnig fyrsta deildarmarkið síðan í mars. Rashford var líka mun léttari á fæti eftir þetta og átti nokkrar ágætar tilraunir til viðbótar.

Seinni hálfleikurinn var lengstum í öruggum höndum United liðsins en heimamenn virtust missa alveg máttinn við þetta vítaklúður sitt.

Kannski var ástæðan frekar að vítadómurinn og markvarslan hafi vakið United upp af værum draumi eftir þessa afar ósannfærandi byrjun.

Southampton endaði manni færri eftir að Jack Stephens var rekinn af velli eftir að hann sparkaði niður Alejandro Garnacho í hraðri sókn.

Garnacho fiskaði manninn af velli og skoraði síðan þriðja og síðasta markið í uppbótartímanum. Laglegt mark hjá stráknum eftir góðan undirbúning Diogo Dalot.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira