Handbolti

Segir að Haukur Þrastar geti gert mikið fyrir ís­lenska lands­liðið á HM í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson skorar á móti Frökkum á Evrópumótinu í janúar. Hann er að gera góða hluti hjá nýju félagi í Rúmeníu.
Haukur Þrastarson skorar á móti Frökkum á Evrópumótinu í janúar. Hann er að gera góða hluti hjá nýju félagi í Rúmeníu. Getty/Sanjin Strukic

Selfysski handboltamaðurinn Haukur Þrastarson er byrjaður að láta til sína taka með sínu nýja liði. Hann flutti sig frá Póllandi til Rúmeníu í sumar og spilar með Dinamo Búkarest í vetur.

Haukur sýndi styrkleika sinn í Meistaradeildarleik í vikunni. Hann heillaði meðal annars danska handboltasérfræðinginn Rasmus Boysen.

Dinamo Búkarest vann þá níu marka sigur á Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans i Fredericia, 37-28.

Haukur skoraði sex mörk úr aðeins átta skotum í leiknum þar af fjögur þeirra með langskotum. Hann átti einnig þrjár stoðsendingar á félaga sina. Haukur kom því að níu mörkum Dinamo í þessum níu marka sigri.

„Svo mikill kraftur í liði Dinamo. Ég vona það virkilega að Þrastarson haldi sér heilum á þessu tímabili. Hann gæti verið frábær, frábær kostur fyrir íslenska landsliðið í janúar,“ skrifaði Boysen.

Haukur hefur verið afar óheppinn með meiðsli síðustu ár og hefur tvisvar slitið krossband.

Hann lék með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar og skoraði þá 10 mörk og gaf 8 stoðsendingar á þeim 76 mínútum sem hann spilaði.

Íslenska landsliðið er i riðli með Slóveníu, Kúpu og Grænhöfðaeyjum í riðli á HM 2025 og fer íslenski riðilinn fram í Zagbreb í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×