Lífið

Stjarnan Villi vekur at­hygli Ítala

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur vakið athygli ítalskra netverja.
Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur vakið athygli ítalskra netverja. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Ítalskur samfélagsmiðlanotandi sýnir Vilhjálmi mikinn áhuga og fer um víðan völl í umfjöllun sinni um stjörnulögmanninn. 

Vilhjálmur er flestum Íslendingum vel kunnur, en hann er einn þekktasti lögmaður landsins. Hann er verjandi Alberts Guðmundssonar knattspyrnumanns, sem nú sætir ákæru fyrir nauðgun, en mál hans var dómtekið nú á fimmtudag.

Albert leikur knattspyrnu á Ítalíu, og gekk nýverið til liðs við Fiorentina frá Genoa. Því hefur mál Alberts eðlilega vakið athygli ítalskra knattspyrnuunnenda, en nú eru Ítalirnir einnig með Vilhjálm í sigtinu. 

Borinn saman við sjálfan Saul

X-notandinn og rithöfundurinn Leonardo Piccione birtir þráðinn með skjáskoti af Albert og Vilhjálmi að mæta í dómsal á fimmtudag, og skrifar: „Albert Guðmundsson kom í dómhúsið í dag, og það er augljóslega ein aðalfréttin á íslenskum miðlum. Ótrúlegi maðurinn til hægri er lögmaður hans, og trúið mér, hann þarf ekki að öfunda Saul Goodman af miklu,“ skrifar Piccione og vísar þar til sjónvarpsþáttafígúrunnar og klækjalögmannsins úr þáttunum Breaking Bad og Better Call Saul.

Þráðurinn er á ítölsku, en þegar þetta er skrifað hafa 1.600 manns líkað við fyrstu færslu hans, og yfir 263 þúsund manns séð hana.

Í næstu færslu er Vilhjálmur kynntur formlega til leiks, í þessum tólf tísta þræði um lögmanninn. 

„Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, þekktur sem Villi, er alvöru stjarna á Íslandi. Skoðanir fólks á honum eru - við skulum segja - mismunandi, en honum er slétt sama. Hann elskar Ítalíu (sérstaklega Napoli) og hér eru fjórar lýsandi myndir af Instagram-reikningi hans:“

Í þræðinum er stuttlega rakið að Villi hafi spilað fótbolta til ársins 2004, meðal annars með Emil Hallfreðssyni, sem gat sér afar gott orð í ítalska boltanum á sínum tíma, þar sem hann spilaði í um einn og hálfan áratug. Þá er fjallað um vinskap Vilhjálms og Einars Arnar Birgissonar, sem var myrtur af Atla Helgasyni árið 2000.

Ingó veðurguð Ítölum hugleikinn

Því næst berst talið að störfum Vilhjálms á sviði lögmennskunnar, þeirri staðreynd að honum hafi verið gert að skrifa lokaritgerð sinni í lagadeild aftur eftir að hann gerðist uppvís að ritstuldi, og greint frá því að hann hafi rekið sína eigin stofu frá árinu 2007.

„Fyrir [Albert] var þekktasti skjólstæðingur Villa líklega Ingólfur Þórarinsson, þekktur sem Ingó Veðurguð, fyrrverandi knattspyrnumaður og rísandi poppstjarna á Íslandi, sem árið 2021 var sakaður um fjölda kynerðisbrota (32 í heildina),“ segir í þræðinum. Þar er vísað til 32 nafnlausra sagna sem aðgerðahópurinn Öfgar birti á hendur Ingólfi það sama ár.

Ítalía, ástin og þorrablót

Þessu næst er vikið að áhuga fjölmiðla á Vilhjálmi og hans persónu: „Villi er aðalpersónan í blöðunum, ekki bara vegna starfa sinna. Tíðar ferðir hans til Ítalíu eru oft til umfjöllunar,“ segir í þræðinum, og vísað er til umfjöllunar Morgunblaðsins um ferð Vilhjálms á mótorhjóli frá Da Polignano a Mare til Santa Maria di Leuca. 

„Árið 2023 var hann til viðtals um ástina hjá Vísi, og sagðist fylgjandi opnum fjölskyldumynstrum. Hann er ekki í sambandi í augnablikinu, en segist heppinn að hafa verið ástfanginn,“ segir í tístinu, þar sem vísað er í viðtalið hér að neðan:

Eins og við var að búast var einnig fjallað um fatastíl Vilhjálms, og vísað til þess að hann fari aldrei út úr húsi án þess að líta út eins og hann sé klipptur út úr ítölsku tískutímariti. Meðal annars er vísað til þess að Vilhjálmur hafi mætt á þorrablót Stjörnunnar í Gucci-leðurjakka, og útskýrt að þorrablót sé „árleg hátíð þar sem fólk borðar rotinn hákarl, hrútspunga og annað norrænt góðgæti.“

Það sem virðist þó hafa farið fram hjá þráðarhöfundi eru gamlar erjur sem virtust hafa tekið sig upp á þorrablótinu, þar sem Vilhjálmur var í hringiðunni, ásamt Helga Brynjarssyni, sem er sonur Brynjars Níelssonar, lögmanns og fyrrverandi þingmanns:

Loks lýkur þræðinum á yfirferð um nokkuð skoplegt mál frá  vorinu 2021, þar sem Vilhjálmur sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann hefði ekki sagt satt og rétt frá um hversu mikið hann tæki í bekkpressu, í viðtali í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957. 

Þar sagðist hann geta lyft 100 kílóum í bekkpressu, en sagðist síðan hafa verið upplýstur um að sú aðferð sem hann lýsti væri ekki viðurkennd af Alþjóðakraftlyftingasambandinu. Með viðurkenndri aðferð gæti hann lyft 80 kílóum.

 „Þessi mistök hafa jafnframt orðið mér hvatning til þess að gera betur og stefni ég á að geta lyft 100 kílóum í bekkpressu í sumarbyrjun. Ég geri orð Denny Crane (eins virtasta lögmanns Bandaríkjanna) að mínum: Neverlost,neverwill,“ sagði Vilhjálmur í tilkynningu sinni af þessu tilefni. 


Tengdar fréttir

Fiorentina þarf ekki að kaupa Albert verði hann dæmdur

Albert Guðmundsson var lánaður frá Genoa til Fiorentina í sumar en í samningi félaganna er ákvæði sem þýðir að Fiorentina þarf að kaupa leikmanninn að tímabilinu loknu. Sú klásúla fellur úr gildi verði Albert dæmdur fyrir kynferðisbrot.

Albert mættur í dómsal

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er mættur í Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem aðalmeðferð í máli hans fer fram í dag og á morgun. Hann sætir ákæru fyrir nauðgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.