Innlent

Veikur maður fluttur með þyrlu á Nes­kaup­stað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mjög bratt var á vettvangi og erfitt að nálgast manninn.
Mjög bratt var á vettvangi og erfitt að nálgast manninn. Mynd/Landsbjörg

Karlmaður var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Neskaupstað í nótt með verk fyrir brjósti. Björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir miðnætti í gær vegna mannsins sem treysti sér ekki til að ganga lengr. Hann var staddur í Sandvík.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út í Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði. Sandvík er staðsett á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og er á þeim slóðum sem maðurinn var á töluvert brattlendi og því ekki fært ökutækjum.

Þar kemur einnig fram að vegna erfiðra aðstæðna hafi björgunarfólk þurft að klifra töluvert á vettvangi. Hægt hafi verið að fara á ökutækjum niður í Viðfjörð og ganga þaðan yfir á staðinn sem viðkomandi var á. Tveir félagar mannsins lögðu af stað á móti björgunarsveitum meðan einn beið með honum.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslu var einnig kölluð út á sama tíma og fór í loftið frá Reykjavík um tuttugu mínútur fyrir klukkan eitt í nótt.

Þegar björgunarfólk kom að manninum var þeirra mat að öruggast væri að hífa manninn upp í þyrlu frekar en að bera hann á börum langa leið. Þyrla Landhelgisgæslunnar hafði einnig verið kölluð út og var komin á vettvang um tuttugu mínútur fyrir þrjú í nótt. Maðurinn var fluttur með þyrlu á Neskaupstað.

Aðgerðum var lokið um klukkan sex í morgun.

Ákveðið var að láta flytja manninn með þyrlunni í stað þess að björgunarfólk bæri hann langa leið.Mynd/Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×