Lífið

„Ég gerði mér grein fyrir því að ekkert yrði aftur eins og það var“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Systkinin Rut og Soffi áttu einstakt samband og voru nánast eins og tvíburar.
Systkinin Rut og Soffi áttu einstakt samband og voru nánast eins og tvíburar. Samsett

Líf Rutar Rúnarsdóttur og fjölskyldu hennar kollvarpaðist fyrir þremur árum þegar eldri bróðir Rutar féll fyrir eigin hendi. Systkinin voru afar náin og Rut missti því bæði bróður og kæran vin á sama tíma. Áfallið breytti Rut á þann hátt að hún syrgði ekki bara bróður sinn heldur einnig gömlu útgáfuna af sjálfri sér, manneskjuna sem hún hafði verið áður en áfallið dundi yfir.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

„Og ég þurfti líka að venjast nýrri mér, og það var sorg út af fyrir sig. Að missa stóran part af sjálfum sér og lífinu breytir manni. Þannig að mér fannst það töluvert erfitt að verða aldrei gamla ég aftur,“ segir Rut.

Sjálfsvígsforvarnarverkefnið Gulur september stendur nú yfir en um er að ræða samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Er þetta er annað árið sem vitundarvakningin er haldin.

Rut er búsett á Grundarfirði en þar er dagskrá á vegum bæjarins í tengslum við gulan september.

Hluti af þeirri dagskrá eru myndskeið sem birtast vikulega á facebooksíðu Grundafjarðarbæjar, þar sem bæjarbúar miðla reynslu sinni og deila sinni sögu sem tengist þessu málefni.

Rut á heiðurinn að fyrsta myndskeiðinu í röðinni, sem birtist þann 6.september síðastliðinn.

„Ég er búin að vera mjög opin með þetta allt saman og hef tjáð mig á samfélagsmiðlum, aðallega inni á Instagram. Ég hef svolítið verið að skrifa mig frá sorginni og mér finnst það gott. Ég kem bara til dyranna eins og ég er klædd og segi hlutina eins og þeir eru,“ segir Rut í samtali við Vísi.

Rut hefur verið mjög opinská með reynslu sína.Aðsend

Sorg að sjá fólkið sitt í brotum

Rut er fædd og uppalin á Grundarfirði, og þar býr hún í dag ásamt eiginmanni og syni. Hún og eldri bróðir hennar, Soffi, voru alltaf einstaklega náin.

„Það voru bara tvö ár á milli okkar, þannig að við vorum miklir vinir alla tíð, og hann var að sjálfsögðu mjög stór partur af mér og mínu lífi,“ segir hún.

„Við vorum hálfpartinn eins og tvíburar. Mér fannst stundum eins og við værum eitt, eins og við værum ein eining.“

Soffi var einungis fertugur þegar hann ákvað sjálfur að stinga lífið af, eins og Rut orðar það.

Undanfarin þrjú ár hafa verið mikil rússíbanareið.

„Það var gífurleg sorg og áfall að missa bróður sinn, og góðan vin. En það var líka sorg að sjá fólkið sitt í brotum og sjá það breytast. Og svo þegar ég gerði mér grein fyrir því að ekkert yrði aftur eins og það var.“

Rut bendir á sorgin, og sorgarúrvinnslan eigi sér margar birtingarmyndir, og það er mismunandi hvernig hún brýst út hjá hverjum og einum.

„Og í mínu tilfelli var það til dæmis áfallastreita; mikið orkuleysi, minnisleysi, magavandamál, missa matarlystina, og verkir versnuðu. Allir stórir og líkamlegir kvillar urðu bara verri og gamlir kvillar voru farnir að taka sig upp aftur,“ segir hún.

„Gamla ég var alltaf svo orkumikil og hafði alltaf nóg að gera og þurfti alltaf að vera á fullu. Ég hafði áður glímt við taugaverki og er auk þess með fæðingargalla í bakinu en mér hafði tekist að halda verkjunum niðri og lifa góðu lífi. Eftir þetta áfall komu allir gömlu verkirnir aftur- með offorsi. Allt sem hafði áður dottið niður rauk aftur upp. Ég var mjög illa á mig komin bæði líkamlega og andlega. Strákurinn minn var bara þriggja ára á þessum tíma, og þeir frændurnir, hann og bróðir minn voru bestu vinir. Ég var ekki bara að kljást við eigin sorg heldur var ég líka að díla við barn sem hafði misst frænda sinn. Og það var erfitt að geta ekki verið almennilega til staðar fyrir strákinn minn. Ég syrgði það líka að ég var ekki lengur mamman sem ég hafði verið.“

Rut á margar góðar minningar af sér og bróður sínum.Aðsend

Það má líka hafa gaman

Á undanförnum þremur árum hefur Rut fikrað sig áfram eftir bjargráðum til að takast á við sorgina, og hún segir margt hafa hjálpað.

„Fyrst og fremst í mínu tilfelli var það að fara inn í sorgina með enga eftirsjá. Að fara inn í þetta stóra verkefni, og það er engin eftirsjá. Að vita að ég, við fjölskyldan og fólkið í kringum bróður minn, við gerðum allt sem við gátum fyrir hann.“

Rut segir líka mikilvægt í þessum aðstæðum að leyfa sér að njóta lífsins, þrátt fyrir allt.

„Það má hafa gaman. Og það á að hafa gaman. Og það má hlæja og fíflast. Það skiptir engu máli hversu stutt eða langt er síðan sorgin bankaði upp á. Það má hafa gaman og það hjálpar okkur í gegnum sorgina.

Í okkar tilviki var þetta til dæmis þannig að fjórum dögum eftir að bróðir minn dó þá varð maðurinn minn fertugur. Við ákváðum að þrátt fyrir allt þá myndum við samt halda upp á afmælið; enda verður maður ekki fertugur nema einu sinni á ævinni. Við hugsuðum þetta þannig að mættum ekki láta sorgina kæfa okkur alveg; þessi hörmungaratburður var búinn að eiga sér stað og það var ekki hægt að taka þetta til baka, sama hvort við myndum halda upp á afmælið eða ekki. Og okkur tókst að halda þessu fína afmælisveislu. Og daginn eftir héldum við svo bara áfram að sinna verkefnunum sem biðu.“

Rut segir samverustundir með vinum og fjölskyldu hafa hjálpað mikið.

„Vinir mínir voru duglegir að draga mig út, fara á rúntinn, fá mér ferskt loft. Komu með mat, pössuðu upp á að ég myndi borða, pössuðu barnið okkar. Og þetta er gífurlega mikil hjálp.“

Hún segir það líka hjálpa að að ylja sér við allar góðu minningarnar sem hún á af stóra bróður sínum.

„Ég er heppin að Soffi var ótrúlega skemmtilegur og fyndinn og góður gaur. Þannig að minningarnar um hann fá mig til að brosa og hlæja. Og hann átti frábæra vini, yndislega vini,” segir hún og bætir við að hún hafi verið búin að kynnast sumum af vinum bróður síns áður. Hún kynntist enn fleirum eftir að Soffi lést.

„Og margir af þeim eru góðir vinir mínir í dag. Og það hjálpaði mér mikið í gegnum sorgina -af því að þarna er smá partur af Soffa.“

Eins og Rut bendir á þá er það hluti af batanum að stíga erfið skref.

Tók sér frí frá sorginni

Góður vinur Rutar hafði það á orði við hana á sínum tíma að núna þyrfti hún að læra að lifa upp á nýtt, læra að lifa í nýjum heimi.

„Annar góður fjölskylduvinur benti mér á að þó að lífið mitt væri búið að hrynja gjörsamlega þá héldi líf annarra áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þetta voru tveir góðir punktar sem hjálpuðu mér og undirbjuggu mig.“

Eitt af því sem Rut tók upp var svokallað „sorgarfrí.“

„Þetta var ákvörðun sem ég tók sjálf, án þess að vita að sorgarfrí væru í rauninni til. Þá finnst mér gott að geta kúplað mig út úr þessum venjulegu aðstæðum, og aðstæðum þar sem Soffi var yfirleitt með okkur, aðstæður sem minntu mig á hann,” segir hún en hún viðurkennir að þessari ákvörðun hafi vissulega fylgt blendar tilfinningar, allavega í byrjun.

Ég vissi að þurfti á þessu sorgarleyfi að halda en ég var samt með samviskubit. Mér fannst einhvern veginn eins og ég væri að svíkja bróður minn með því að leyfa mér að gleyma honum í smá tíma.“

Rut hefur sótt aðstoð hjá sálfræðingi, og meðal annars gengist undir svokallaða EMDR meðferð, sem hún segir hafa reynst sér vel.

„En mér fannst erfitt að segja sálfræðingnum mínum frá þessum plönum með sorgarfríið. En eins og hún benti mér á þá er þetta góð og skynsamleg ákvörðun.“

Engin tímamörk á sorginni

Eins og Rut bendir á þá er það hluti af batanum að stíga erfið skref.

„Ég ákvað meðvitað, fyrir ekki svo löngu síðan, að fara að taka erfiðu skrefin. Koma mér inn í aðstæður sem ég vissi að myndu triggera mig, eða ég hafði forðast áður, til dæmis aðstæður í kringum dánardaginn hans og slíkt. En það er alltaf talað um að sorgin komi í bylgjum og mér finnst þetta vera svolítið eins og hafið; það er öldugangur upp og niður, og svo lygnir. Það eru núna liðin rúm þrjú ár og enn koma dagar þar sem sorgin ætlar gjörsamlega bara að buga mig,” segir hún og bætir við að það skipti ekki máli hvort það er einn dagur eða tíu ár: sorgin er mismunandi og getur alltaf bankað upp á.“

Rut segir félagasamtökin Píeta hafa veitt sér og sínum ómetanleg stuðning á erfiðum tímum.

„Píeta eiga stóran þátt í því að ég er uppistandandi. Þeirra frábæra starf hjálpaði mér og mínu fólki gífurlega.“

Hún vonast til þess að hennar frásögn muni hjálpa öðrum þarna úti sem eru að ganga í gegnum ástvinamissi eða önnur áföll, og eru að reyna að feta sig áfram með breytta heimsmynd. Með því að opna sig um reynslu sína vill hún sýna öðrum að það er von.

Hún beinir þeim orðum til fólks að bæla ekki niður sorgina.

„Nýtið öll verkfæri sem þið eigið og ef þið eigið ekki verkfæri, finnið þau, og finnið fleiri verkfæri. Verið opin, nýtið allt fólk í kringum ykkur, vini og kunningja, prestinn, sálfræðinga, bara hvað sem er. Reynum okkar besta að snúa ömurlegum aðstæðum í góðar og finna það jákvæða í lífinu. Nýtum lærdóminn sem lífið býður upp á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×