Fótbolti

Alexandra kom inn á og varði for­ystu Fiorentina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alexandra hefur komið inn af bekknum í báðum leikjum tímabilsins hingað til.
Alexandra hefur komið inn af bekknum í báðum leikjum tímabilsins hingað til. Marco Luzzani/Getty Images

Tímabilið byrjar vel hjá Alexöndru Jóhannsdóttur og liðsfélögum hennar í Fiorentina á Ítalíu. Eftir að hafa lent undir vannst útivallarsigur í dag, 1-2 gegn AC Milan. Alexandra byrjaði á bekknum en kom inn undir lokin og stýrði skipinu í höfn.

Öll þrjú mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Evelyn Ijeh tók forystuna snemma fyrir Mílanó-liðið. Sofie Bredgaard jafnaði hins vegar á 17. mínútu fyrir Fiorentina og Verónica Boquete setti sigurmarkið af vítapunktinum á 32. mínútu.

Veronica Boquete skoraði sigurmarkið af vítapunktinum. Sést hér fyrir miðju.Image Photo Agency/Getty Images

Leikurinn var æsispennandi allt til enda en fleiri mörk voru ekki skoruð. Fiorentina varði forystuna vel og gerði klókar skiptingar.

Framherjinn og markaskorarinn Verónicu Boquete fór út af fyrir Alexöndru, sem er varnarsinnaður miðjumaður.

Þetta var annar leikur tímabilsins og Fiorentina er með fullt hús stiga, í öðru sæti deildarinnar á eftir Juventus sem er með betri markatölu.

Alexandra hefur komið inn af varamannabekknum í báðum leikjum, en var í byrjunarliðinu í tveimur leikjum þess á milli í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×