Enski boltinn

Aston Villa með ævin­týra­lega endur­komu gegn Everton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ollie Watkins skráði nafn sitt tvívegis á blað í dag.
Ollie Watkins skráði nafn sitt tvívegis á blað í dag. Malcolm Couzens/Getty Images

Aston Villa lenti tveimur mörkum undir en vann 3-2 gegn Everton í fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Heimamenn byrjuðu á afturfótunum og lentu tveimur mörkum undir snemma. Dwight McNeil kom Everton yfir eftir 16 mínútur og Dominic Calvert-Lewin tvöfaldaði forystuna tíu mínútum síðar.

En Aston Villa átti endurkomu í erminni og þar fór Ollie Watkins fremstur í flokki. Hann hafði klúðrar þó nokkuð af færum í fyrstu þremur leikjunum en gekk öllu betur í dag, skoraði tvö mörk og jafnaði leikinn.

Til að auka sóknaraflið var framherjanum Jhon Durán svo skipt inn á og þeir voru tveir uppi á topp. Durán þakkaði traustið og setti sigurmarkið á 76. mínútu, stórkostlegt skot með vinstri fæti af löngu færi.

Þrumufleygur af vinstri fæti Jhon Durán tryggði sigurinn.Rich Graessle/Icon Sportswire via Getty Images

Aston Villa er þá með 9 stig eftir fjóra leiki og situr í 3. sæti deildarinnar. Everton er enn stigalaust og með verstu markatöluna, þar með í neðsta sæti á eftir Southampton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×