Skoðun

Að taka stjórn á eigin stefnu

Sigrún Þóra Sveinsdóttir skrifar

Það er auðvelt að verða fyrir áhrifum umhverfisins, sérstaklega í ljósi þess að umfang áreitisins hefur stóraukist í gegnum árin með framförum í tækni og notkun snjallsíma. Þessi þróun býður upp á fullt af tækifærum og möguleikum sem auðvelda okkur lífið og ótal margar lausnir sem gefa lífinu lit. Á sama tíma kallar þetta á aukna ábyrgð að taka stjórn á eigin athygli og viðbrögðum, til að ná tökum á eigin lífi og stefnu. Hættan er að við færumst með straumum áreitanna í kringum okkur og bregðumst meira við heldur en að ákveða og velja svörun og viðbrögð við upplifunum okkur. 

Góðu fréttirnar eru þær að við getum tekið stjórn á eigin lífi og stefnu með verkfærum og tólum sem hafa verið til í mörg ár, þ.e. með því að vita hvaða sýn við höfum í eigin lífi og kortleggja út frá henni markmið sem hjálpa okkur að ná sýninni. Í framhaldi er síðan hægt að skipuleggja vikulega og mánaðarlega smærri markmið og aðgerðir sem hjálpa okkur að ná þessum stærri markmiðum í átt að sýn okkar. 

Það er svo mikilvægt að taka stjórnvölinn á því hvert við erum að stefna í lífinu, annars er hættan að við lendum í því að vera strengjabrúður áreitanna í kringum okkur og dagarnir, vikurnar og mánuðirnir líða án þess að við höfum stigið skref í áttina að draumum okkar sem dvelja innra með okkur og bíða eftir því að fá að raungerast. 

Dæmi um áhrifaríka æfingu sem þú getur gert til þess að taka stjórn á eigin stefnu í lífinu er að sjá fyrir þér jákvæða ímynd af þér og framtíðinni. Með þessari æfingu virkjar þú heilasvæði sem tengjast sköpunargáfu, svæði í framennisberki tengd stýringu á streituviðbragði og grunnsvæði heilans tengd hvatningu. Æfingin eykur líkurnar á því að þú náir markmiðum þínum í átt að framtíðarsýn þinni. 

1) Komdu þér fyrir á þægilegum stað þar sem þú færð ró og næði. Lokaðu augunum og sjáðu fyrir þér líf þitt 3 - 5 árum seinna eins og allt sé eins og þú vilt hafa það. Þú getur valið ákveðið svið í lífinu eins og vinnuna, persónuleg sambönd eða heilsuna sem dæmi. Spurðu þig og sjáðu fyrir þér: ,,Hvernig manneskja viltu vera?”, ,,Hvað viltu vera að gera?” og ,,Hvað viltu vera búin að afreka?” 

2) Opnaðu augun og skrifaðu hjá þér allt sem kom upp í huganum í æfingunni, í eins miklum smáatriðum og hægt er. Einbeittu þér að því sem var uppbyggilegt og skrifaðu í nútíð eins og þú sért nú þegar að lifa í þessari framtíð. 

3) Skoðaðu hvaða gildi og styrkleikar þú hefur og veldu a.m.k. 3 - 5 af þeim sem þú metur mikilvæg til að ná þessari framtíðarsýn, t.d. þrautseigja, húmor, heilindi eða umhyggja. 

4) Brjóttu niður framtíðarsýn þína í ákveðin, framkvæmanleg markmið. Hvaða skref þarftu að taka til að komast í átt að þessari framtíðarsýn? Forgangsraðaðu þessum markmiðum og settu þau á tímalínu. Gættu þess að hafa þau raunhæf og framkvæmanleg. 

5) Fáðu traustan aðila með þér til að styðja þig í átt að sýn þinni - þjálfara, leiðbeinanda eða góðan vin. Það getur ýtt undir skuldbindingu og aukið líkurnar á að þú náir markmiðum þínum. 

6) Skoðaðu og endurskoðaðu sýn þína reglulega, skráðu hjá þér tíma þar sem þú minnir þig á hana, endurskoðar sýnina og fagnar litlu skrefunum í átt að henni. 

Höfundur er sálfræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Grænfáninn 30 ára

Sigurlaug Arnardóttir,Guðrún Schmidt,Ósk Kristinsdóttir,Borghildur Gunnardóttir skrifar

Sjá meira


×