Fótbolti

Sagði fjöl­miðlum að hætta að kalla Val­geir „Frið­riks­son“

Sindri Sverrisson skrifar
Valgeir Lunddal í fyrsta leik sínum fyrir Fortuna Düsseldorf.
Valgeir Lunddal í fyrsta leik sínum fyrir Fortuna Düsseldorf. Getty/Andreas Gora

Valgeir Lunddal lék sinn fyrsta leik fyrir Fortuna Düsseldorf í gær, í þýsku 2. deildinni í fótbolta. Fjölmiðlafulltrúi þýska félagsins nýtti tækifærið til að kenna fjölmiðlum rétta notkun á nafni Íslendingsins.

Valgeir heitir fullu nafni Valgeir Lunddal Friðriksson. Þess vegna hafa þýskir fjölmiðlar talað um „Friðriksson“ í sínum fréttum um íslenska landsliðsmanninn, sem kom frá Häcken í Svíþjóð fyrir 300.000 evrur (45 milljónir króna) í sumar.

Í frétt Bild í gær segir að það hafi þótt eðlilegt rétt eins og liðsfélagi Valgeirs, Ísak Bergmann Jóhannesson, hafi verið kallaður „Jóhannesson“. Hins vegar hafi komið í ljós að ekki bæri að nota Friðriksson-nafnið, eins og Tino Polster fjölmiðlafulltrúi Düsseldorf útskýrði:

„Við getum hætt að nota „Friðriksson“ því hann verður bara með „Lunddal“ á treyjunni sinni. Þetta „Lunddal“-nafn er ættarnafnið og hann vill halda því í heiðri. Þess vegna notuðum við „Lunddal“. Hann heitir sem sagt Valgeir Lunddal.“

Valgeir kom inn á sem varamaður í gær, í sínum fyrsta leik í Þýskalandi, og þeir Ísak fögnuðu 2-0 útisigri gegn Herthu Berlín. Félagi þeirra í landsliðinu, Jón Dagur Þorsteinsson, kom inn á sem varamaður hjá Herthu, í sínum öðrum leik fyrir liðið eftir komuna frá OH Leuven í Belgíu.

Düsseldorf, sem afar naumlega missti af sæti í efstu deild Þýskalands síðasta vor, er á toppi þýsku 2. deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. Hertha er í 9. sæti með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×