Veður

Næsta lægð nálgast úr suð­vestri

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er hita á landinu á bilinu sjö til sautján stig.
Spáð er hita á landinu á bilinu sjö til sautján stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt í dag, fimm til þrettán metrum á sekúndu, og er spáð björtu og fremur hlýju veðri á Norðaustur- og Austurlandi, en að verði skýjað og sums staðar smávæta í öðrum landshlutum.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að lægð við norðausturströndina fjarlægist nú, en næsta lægð nálgist úr suðvestri í kvöld. Þá snýst í suðaustlæga átt með rigningu um mest allt land. Spáð er hita á bilinu sjö til sautján stig og verður hlýjast austantil.

„Lægðin fer norðaustur yfir land á morgun með strekkings vindi og rigningu. Úrkomulítið norðaustantil á landinu fram eftir degi og þar gæti hiti náð 16 til 17 gráðum. Í kjölfar lægðarinnar snýst vindur í norðvestan- og vestanátt, það styttir smám saman upp sunnan heiða og kólnar heldur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðlæg eða breytileg átt, víða 10-15 m/s og rigning, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast norðaustantil. Snýst í vestlæga átt seinnipartinn, dregur úr vætu og kólnar.

Á fimmtudag: Suðvestan 3-10 og bjart með köflum, en skýjað og sums staðar dálítil væta vestanlands.

Á föstudag: Fremur hæg suðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum við suður- og vesturströndina, annars bjart að mestu. Hiti breytist lítið.

Á laugardag og sunnudag (haustjafndægur): Austanátt og dálítil rigning með köflum. Hiti 3 til 10 stig.

Á mánudag: Breytileg átt og rofar til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×