Erlent

Verður kanslara­efni Kristi­legra demó­krata

Atli Ísleifsson skrifar
Friedrich Merz hefur gengt embætti leiðtoga Kristilegra demókrata í Þýskalandi frá árinu 2022.
Friedrich Merz hefur gengt embætti leiðtoga Kristilegra demókrata í Þýskalandi frá árinu 2022. AP

Kristilegir demókratar í Þýskalandi hafa ákveðið að Friedrich Merz, formaður CDU, verði kanslaraefni flokkanna í þingkosningum sem fram fram í Þýskalandi á næsta ári. Líklegt þykir að hann muni þar keppast um kanslaraembættið við núverandi kanslara, Olaf Scholz.

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að Kristilegir demókratar (CDU) og bæverskur systurflokkur hans, CSU, hafi náð samkomulagi um að Merz verði kanslaraefni flokkanna.

Deilt hafði verið um hvort Merz eða Markus Söder, sambandsríkisstjóri Bæjaralands og leiðtogi CSU, yrði kanslaraefni flokkanna en sagt var frá því í morgun að Söder hafi hafnað því að bjóða sig fram sem kanslaraefni flokkanna. Áður hafði svo Hendrik Wüst, sambandsríkisstjóri Norðurrín-Vestfalíu, sem einnig hafði verið orðaður við stöðuna, lýst yfir stuðningi við Merz.

Hinn 68 ára Merz sóttist eftir að verða kanslaraefni Kristilegra demókrata snemma á öldinni en Angela Merkel hafði þá betur. Merz tók við formennsku í CDU árið 2022 og er talinn hafa fært flokkinn lengra til hægri og hefur hann sérstaklega talað fyrir strangari stefnu í innflytendamálum.

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi 25. september 2025, og hafa Kristilegir demókratar að undanförnu mælst stærstir í skoðanakönnunum. Í sumum þeirra hafa Kristilegir demókratar mælst með meira fylgi en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna – það er Jafnaðarmannaflokks Scholz kanslara, Græningjaflokksins og Frjálslyndra (FDP).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×