Viðskipti innlent

Fljúga til Gauta­borgar næsta sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Flogið verður tvisvar í viku.
Flogið verður tvisvar í viku. Vísir/Vilhelm

Icelandair mun bæta Gautaborg í Svíþjóð við leiðakerfið sumarið 2025.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að flogið verði tvisvar í viku, á fimmtudögum og sunnudögum frá 19. júní til 31. ágúst. 

„Þessi önnur stærsta borg Svíþjóðar er Íslendingum vel kunn og árlega sækir fjöldi íslenskra barna og unglinga þrjú stór íþróttamót sem þar eru haldin. Gautaborg bætist þannig við fjölbreytt úrval fjölskylduvænna áfangastaða í leiðakerfi Icelandair,“ segir í tilkynningunni.

Gautaborg er næststærsta borg Svíþjóðar.Icelandair

Haft er eftir Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, að það sé mjög ánægjulegt að bjóða aftur upp á flug til Gautaborgar yfir sumartímann. 

„Við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir flugi til borgarinnar á meðal ferðaskipuleggjenda og viðskiptavina okkar, en þúsundir íslenskra íþróttaiðkenda heimsækja borgina ár hvert og oft fylgja heilu fjölskyldurnar sínu fólki. Við höfum lagt áherslu á að bjóða upp á ferðir þegar landsliðin okkar spila erlendis en það er ánægjulegt að geta líka boðið upp á góðar tengingar í tengslum við íþróttamót yngri kynslóða, enda erum við öll í sama liði,“ er haft eftir Tómasi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×