Guðmundur Ingi óskaði eftir því að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra frestaði brottflutningnum eftir að fregnir bárust af því að fjölskyldan væri komin á Keflavíkurflugvöll, þaðan sem til stóð að senda hana til Spánar í fyrrinótt.
Varð við beiðninni með semingi
Guðrún segist hafa orðið við beiðni Guðmundar Inga, þrátt fyrir að það hafi verið henni þvert um geð.
Ríkisstjórnin ræddi mál fjölskyldunnar á ríkisstjórnarfundi í morgun og Guðmundur Ingi ræddi við Heimi Má Pétursson fréttamann að fundi loknum.
Lá í þínum orðum að yrði það ekki gert, yrði það mjög erfitt fyrir stjórnarsamstarfið?
„Ég hótaði ekki stjórnarslitum,“ segir Guðmundur Ingi.
Málið er inni í kerfinu
Spurður að því hvort mál Yazans gæti orðið til stjórnarslita verst Guðmundur Ingi svara. „Málið er inni í kerfinu núna og við reynum að ræða sig okkur niður á niðurstöðu í þessari ríkisstjórn, við höfum gert það síðastliðin sjö ár og við hyggjumst halda því áfram.“
Þá segir hann að liggi fólk inni á spítala, sé lasið og veikt, þá þurfi að setja spurningarmerki við að það sé flutt með valdi úr landi. Það hafi hann gert í tilfelli Yazans.
Varhugavert að reyna aftur
Guðmundur Ingi segist telja varhugavert að ráðast aftur í að vísa Yazan af landi brott skömmu eftir að henni var frestað. Ljóst er að verði Yazan og fjölskyldu ekki vísað brott á næstu dögum muni þau öðlast rétt til efnislegrar meðferðar hér á landi.
„En auðvitað er málið inni í kerfinu og það er bara statt þar. Afskipti mín eða annarra hafa eingöngu lotið að því að biðja um frestun á þeirri brottvísun sem var kominn í gang, af málefnalegum ástæðum vegna þess að þetta er sérstakt mál. Það er ekki óeðlilegt til að geta áttað sig betur á málinu og fengið upplýsingar, sem mér finnst mikilvægt að við höfum undir höndum.“
„Við getum ekki tekið á móti öllum sem hingað vilja koma“
Guðmundur Ingi segir að almenn séð vilji hann að kerfið geti gripið fólk sem er í viðkvæmri stöðu og reynt hafi verið að byggja upp slíkt kerfi. Fyrir tilstilli Vintri grænna hafi breytingar verið gerðar á kerfinu til þess að það yrði mannúðlegra.
„Til dæmis með því að að það gildi annað um börn og barnafjölskyldur, um fólk í viðkvæmri stöðu og svo framvegis. Þannig að við höfum verið að reyna að byggja upp þannig kerfi. Að sjálfsögðu á mannúð að vera ráðandi og ríkjandi í þessum mjög svo viðkvæma málaflokki.“
Aldrei áður hafi fleiri verið á flótta í heiminum og neyðin sé mjög mjög víða. Hann geri sér þó grein fyrir því að kerfi sé nauðsynlegt til þess að halda utan um flóttamannamálin.
„Við getum ekki tekið á móti öllum sem hingað vilja koma og það þarf að vera í einhverju samhengi líka við það sem önnur ríki eru að gera. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því og þannig kerfi höfum við verið að byggja upp.“