Skoðun

Þegar ó­mennskan vitnar í lög

Bubbi Morthens skrifar

Í gegnum söguna hafa allskonar óhæfuverk verið framin af ríkisstjórnum sem réttlæta slíkt með því að vitna í lög. Þegar ráðherra vitnar í lög til þess að réttlæta það að flytja barn með ólæknandi sjúkdóm úr landi, útí óvissuna, og fjölskyldu hans með, þá getur hann um leið slökkt á samvisku sinni og sagt: Ég er bara að fylgja lögum. Með því er hinu mannlega ýtt burt og hann fer að sofa, ónæmur fyrir botnlausri skelfingu barnsins. 

Þegar læknir metur barn ferðafært og embættismenn vitna í það, þá má minna á að nóg dæmi eru til um að læknar hafi verið notaðir í gegnum söguna til þess að ljá óhæfuverkum trúverðugleika. Og þó að fjölfatlað barn, sem á ekki mörg ár eftir af lífinu, geti farið um borð í flugvél segir það ekkert um andlega skelfingu þess við þá upplifun. En það segir allt um andlegt ástand þeirra sem framkvæma aðförina að því.

Lögreglumaðurinn segir: ekki benda á mig, ég er bara að gera það sem mér er skipað. Læknirinn segir: ég er bara að gera það sem ég var beðinn um. Ráðherrann segir: ég er bara að fylgja lögum. Það er svo mjó lína á milli þess að henda langveiku barni úr landi og að handtaka fólk útaf pólitískum skoðunum eða fyrir það að fæðast samkynhneigður eða fylgja ekki leiðtoganum.

Þegar menn vitna í lög til þess að réttlæta óhæfuverk og níðingshátt þá þarf fólk að vera á verði. Því það gæti auðveldlega sjálft orðið fórnlamb þeirra sem vitna í lög sem sett voru meðan frelsið svaf á verðinum. Þjóðfélag sem réttlætir slíka meðferð á veiku barni er ekki í góðu standi og það vitum við öll. En þegar ráðherra blikkar ekki auga og segir að óréttlæti sé í raun réttlæti þá fer um mann hrollur. Og þegar hann endurtekur: við erum að fylgja lögum, þá vakna draugar sögunnar sem voru fluttir úr landi vegna þess að þeir voru ekki velkomnir en voru síðan sendir í búðir dauðans.

Að fylgja lögum segir ekkert um mennsku eða kærleika, mildi né velvild. Engin lög sem eru til höfuðs fólki í neyð eiga rúm fyrir slíkt.

Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Grænfáninn 30 ára

Sigurlaug Arnardóttir,Guðrún Schmidt,Ósk Kristinsdóttir,Borghildur Gunnardóttir skrifar

Sjá meira


×