Fótbolti

Castro rekinn og Ronaldo fær fjórða þjálfarann

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo getur kvatt landa sinn Luis Castro.
Cristiano Ronaldo getur kvatt landa sinn Luis Castro. Getty/Elie Hokayem

Luis Castro hefur verið rekinn úr starfi þjálfara Al-Nassr í Sádi-Arabíu. Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo fær þar með sinn fjórða þjálfara frá því að hann kom til félagsins í byrjun árs 2023.

Castro hafði stýrt Al-Nassr frá því í fyrrasumar en ekki náð þeim árangri sem til var ætlast, með einn albesta leikmann sögunnar í sínum herbúðum.

Þó að Ronaldo yrði markakóngur á síðustu leiktíð með heil 35 mörk þá endaði Al-Nassr í 2. sæti á eftir meisturum Al-Hilal á síðustu leiktíð. Byrjunin hefur svo ekki verið nógu góð á þessari leiktíð og liðið aðeins unnið einn af fyrstu þremur leikjum sínum, en gert tvö jafntefli.

Castro, sem er 63 ára Portúgali, var því látinn víkja. Hann tók við af Dinko Jelicic sem stýrði Al-Nassr tímabundið í átta leikjum, eftir að Rudi Garcia var rekinn.

Nú er útlit fyrir að Stefano Pioli, sem síðast stýrði AC Milan í fimm ár, verði næsti þjálfari Al-Nassr og þar með sá fjórði sem stýrir Ronaldo í gulu treyjunni.

Stefano Pioli var vel liðinn hjá AC Milan og fékk tolleringu þegar hann kvaddi leikmenn í vor.Getty/Claudio Villa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×