Erlent

„Það er hula yfir sólinni“

Vésteinn Örn Pétursson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Miklir skógareldar geisa í Portúgal.
Miklir skógareldar geisa í Portúgal. AP/Bruno Fonseca

Sjö hafa farist í miklum gróðureldum sem geisa í Portúgal og á sjötta tug hafa slasast. Íslendingur í Portó segir gulleitan reykjarmökk hafa legið yfir borginni í dag og í gær. Hún hafi aldrei upplifað annað eins.

Almannavarnir í Portúgal segja fimmtíu og fjóra gróðurelda brenna um norðanvert og mitt landið. Rúmlega fimm þúsund slökkviliðsmenn berjast við eldana og Frakkland, Grikkland, Ítalía og Spánn hafa sent flugvélar til aðstoðar.

Loka hefur þurft tveimur lestarleiðum og þónokkrum hraðbrautum, þar á meðal hraðbrautinni milli Lisbon og Portó.

Allt í kringum Portó brenna skógareldar og er borgin mettuð af reyk. Hann er svo mikill að hann sást á gervihnattamyndum í dag, berast yfir Atlantshafið. Telma Tómasson fréttakona er stödd í Portó.

„Þetta kemur og fer en þetta var mjög slæmt í dag. Var líka slæmt í gær, en miklu verra í dag. Það er vindasamt núna og nóttin var mjög slæm. Ég gerði þau mistök að hafa opið, og reykjarmökkinn leggur hér yfir og maður finnur sviðann í augum,“ segir Telma.

Hún sá eldana þegar hún flaug til Portó fyrir nokkrum dögum síðan. Hún segir eldana ekki sjást frá borgini en fólk finni vel fyrir reyknum.

Telma segir daginn í dag hafa verið verstan. Mikinn reyk leggi yfir svæðið.

„Það er alveg fólk úti og ég er búin að vera úti meiri hlutann af deginum. Ég sé að fólk er að nota grímur. Fólki er ráðlagt að halda sig innandyra sem er viðkvæmt fyrir reykjarmekkinum, enda er hann stækur,“ segir Telma.

Hún segist aldrei hafa upplifað svona aðstæður áður.

„Þetta er mjög skrítið. Það er hula yfir sólinni, það er allt rauðgulleitt. Þegar ástandið var verst í dag sá ég ekki yfir ána, og það sást varla í húsin hérna hinu megin við ána. Það er ekki svo langt hérna á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×