Sport

Ný sönnunar­gögn gætu hjálpað Chiles að endur­heimta bronsið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Chiles tekur sjálfu með bronsmedalíuna sem var svo tekin af henni.
Jordan Chiles tekur sjálfu með bronsmedalíuna sem var svo tekin af henni. getty/Tim Clayton

Vendingar hafa orðið í baráttu bandarísku fimleikakonunnar Jordans Chiles um að endurheimta bronsverðlaunin sem voru tekin af henni á Ólympíuleikunum í París.

Bronsverðlaunin voru tekin af Chiles þar sem að þjálfarateymi hennar var of lengi að gera athugasemd við einkunn sem hún fékk fyrir gólfæfingar sínar. Ana Barbosa frá Rúmeníu endaði á því að fá bronsið.

Chiles áfrjýjaði úrskurðinum tvívegis til Alþjóða íþróttadómstólsins (Cas) en án árangurs. Hún brá þá á það ráð áfrýja til Hæstaréttar Sviss til að freista þess að endurheimta bronsið.

Nú hafa líka borist fréttir af því að ný sönnunargögn séu komin fram í málinu sem gætu hjálpað Chiles í baráttu sinni.

Í heimildamyndinni Simone Biles: Rising er myndband þar sem þjálfari Chiles, Cecile Landi, gerir athugasemd við einkunn hennar, 49 sekúndum eftir að hún lauk æfingum sínum. Þjálfarar hafa sextíu sekúndur til að gera athugasemdir við einkunnir.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Cas taki myndbandið til skoðunar en Bandaríska fimleikasambandið vonast til að það verði til þess að Chiles fái bronsverðlaunin aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×