Sport

Úkraínski heims­meistarinn hand­tekinn á flug­velli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oleksandr Usyk var handjárnaður í flugvelli í Kraká.
Oleksandr Usyk var handjárnaður í flugvelli í Kraká.

Hnefaleikakappinn Oleksandr Usyk, heimsmeistari í þungavigt, hefur verið látinn laus eftir að hafa verið handtekinn á flugvelli í Póllandi. Forseti Úkraínu blandaði sér í málið.

Usyk var handtekinn á flugvelli í Kraká í gær. Á myndbandi sáust einkennisklæddir menn leiða hann í burtu í handjárnum. 

Ekki er vitað af hverju Usyk var handtekinn en honum hefur nú verið sleppt úr haldi, meðal annars fyrir tilstuðlan Volódímírs Selenskí, forseta Úkraínu.

„Ég ræddi við Usyk í síma þegar hann var handtekinn. Ég var reiður vegna framkomunnar í garð borgara okkar og meistara,“ skrifaði Selenskí á Telegram.

„Ég skipaði utan- og innanríkisráðherra að komast að öllu um handtökuna. Um leið og mér var tjáð að allt væri í lagi var meistaranum okkar sleppt.“

Samkvæmt teymi Usyks og honum sjálfum var um misskilning að ræða. Hann kvaðst einnig ánægður með að málið hafi verið leyst. Usyk var á leiðinni til London til að fylgjast með bardaga Anthonys Joshua og Daniels Dubois um helgina.

Usyk varð heimsmeistari í þungavigt eftir að hafa sigrað Tyson Fury í maí. Þeir eiga að mætast aftur 21. desember. Usyk hefur unnið alla 22 bardaga sína sem atvinnumaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×