Evrópumeistarar Real Madrid hófu titilvörnina á 3-1 sigri gegn Stuttgart en lentu þó í vandræðum. Þeir fengu reyndar vítaspyrnu eftir hálftíma leik en við myndbandsskoðun kom í ljós að um algjöran leikaraskap var að ræða hjá Antonio Rüdiger, varnartrölli Real.
Kylian Mbappé náði hins vegar að koma Real yfir en Deniz Undav jafnaði metin fyrir Stuttgart. Það var svo ekki fyrr en á 83. mínútu sem Rüdiger kom Real yfir á ný og brasilíska undrabarnið Endrick skoraði svo lokamarkið.
Bayern München vann 9-2 sigur gegn Dinamo Zagreb í fyrsta Evrópuleik sínum undir stjórn Vincents Kompany. Harry Kane skoraði fernu, þar af þrjú mörk úr vítum, og Michael Olise skoraði tvö.
Dinamo lenti 3-0 undir í fyrri hálfleik en náði að minnka muninn í 3-2 snemma í seinni hálfleik, áður en allar flóðgáttir opnuðust.
AC Milan komst yfir gegn Liverpool en varð að sætta sig við 3-1 tap á heimavelli. Christian Pulisic kom Milan yfir en Ibrahima Konaté og Virgil van Dijk komu Liverpool yfir með keimlíkum skallamörkum af stuttu færi. Dominik Szoboszlai skoraði svo þriðja mark gestanna eftir góðan undirbúning Cody Gakpo.
Juventus vann PSV 3-1 þegar sem Tyrkinn Kenan Yildiz, sem kemur til Íslands í næsta mánuði, skoraði fyrsta mark Meistaradeildarinnar í ár með frábæru skoti í stöng og inn.
Aston Villa er mætt í Meistaradeildina og hóf hana á frábærum 3-0 útisigri gegn Young Boys í Sviss. Youri Tielemans, Jacob Ramsey og Amadou Onana skoruðu mörkin.
Loks vann Sporting Lissabon 2-0 sigur gegn Hákonarlausum Lille-mönnum í Portúgal. Rauða spjaldið fór á loft í fyrri hálfleik þegar Angel Gomes fékk sitt annað gula spjald, og það reyndist gestunum of erfitt. Svíinn eftirsótti Viktor Gyökeres skoraði fyrra mark Sporting og Belginn Zeno Debast það seinna með stórkostlegu þrumuskoti.