Lífið

Eitt stærsta bílabíó landsins fer fram um helgina

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Sjálf kvikmyndahátíðin hefst í Háskólabíói þann 26. september og stendur til 6. október næstkomandi.
Sjálf kvikmyndahátíðin hefst í Háskólabíói þann 26. september og stendur til 6. október næstkomandi. Getty

Hið vinsæla bílabíó snýr aftur laugardaginn 21. september á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð  Reykjavík, enn sem fyrr er það eitt það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi. Risastóru bíótjaldi verður komið fyrir við reiðhöllina í Víðidal þar sem tekið verður á móti gestum í sannkallaða kvimyndaveislu.

Matarvagnar, popp og gos verður á staðnum til að gera bíóupplifunina enn eftirminnilegri.

Fjórar vinsælar kvikmyndir verða sýndar yfir daginn og hefst fyrsta sýning kl 15:30. Einfalt verður að tengja útvarpið við rétta rás en auk þess verður íslenskur texti við allar kvikmyndirnar. Þá verða sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RIFF.

Bróðir minn ljónshjarta

Sænska kvikmyndin bróðir minn ljónshjarta verður sýnd kl 15:30. Myndin sem sló í gegn árið 1977 í leikstjórn Olle Hellblom og fjallar um viðureign bræðranna Karls og Jónatans við Þengil grimma og svartklæddu riddara hans.

Með allt á hreinu

Íslenska tónlistar- og grínmyndin Með allt á hreinu verður sýnd klukkan 18:00. Myndin fjallar um hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar og samband meðliðna sem einkennist af ást, afbrýðisemi og spaugilegum uppákomum. Kvikmyndin kom út árið 1982 í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar.

Draugasaga 

Kynngimögnuð ræma eftir Viðar Víkingsson og Odd Björnsson kom út 1985. Myndir segir frá læknanema sem tekur að sér næturvörslu í sjónvarpshúsi við Laugaveg. Hann kynnist förðunardömu og saman ákveða þau að setja á svið draugagang til að hrekkja annan næturvörð. kvikmyndin hefst klukkan 20:15.

Tilbury

Kvikmyndin Tilbury, einnig eftir Viðar Víkingsson, kom út árið1987. Sagan gerist árið 1940 og segir frá sveitastrák sem var sendur til Reyjavíkur til að æfa sund og starfa fyrir breska hernámsliðið. Jafnframt vill hann vita hvað orðið hafi um æskuvinkonu sína sem hann svo uppgötvar að sé í tygjum við breskan liðsforingja, sem er kannski, þegar allt kemur til alls, bara tilberi. Kvikmyndin hefst kl 21:30.

Sjálf kvikmyndahátíðin hefst í Háskólabíói þann 26. september og stendur til 6. október næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×