Skoðun

Á­skorun til Sjúkra­trygginga Ís­lands – hugsum í lausnum

Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Á íbúafundi sem haldinn var í Búðardal í nóvember 2023 var m.a. rætt um regluverk Sjúkratrygginga Íslands um greiðslufyrirkomulag stofnunarinnar vegna sjúkraþjálfunar því mikil vinna sjálfboðaliða hefur verið lögð fram í þeim tilgangi að byggja upp aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í Búðardal en erfiðlega hefur gengið að fá sjúkraþjálfara til starfa fram til þessa. Vöntun er á þjónustunni í byggðarlaginu og fjölmargir sem sækja hana utan þess, með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi.

Meðal þess sem rætt var á fyrrnefndum íbúafundi var að Sjúkratryggingar Íslands greiða þeim sem þurfa að sækja sjúkraþjálfun fyrir aksturinn en sá möguleiki er ekki til staðar í núverandi regluverki og samningum við sjúkraþjálfara að snúa dæminu við.

Það gæti verið jákvæð byggðaaðgerð stjórnvalda, og þá Sjúkratrygginga Íslands í þessu tilfelli, að opna á það að greiða sjúkraþjálfurum fyrir akstur á starfsstöð þar sem allur búnaður er til staðar, líkt og nú er í Búðardal þökk sé duglegu og framtakssömu fólki í Ungmennafélaginu okkar.

Það verður að segjast að það hlýtur að vera hagkvæmara þjóðhagslega að greiða einum sjúkraþjálfara fyrir akstur heldur en að greiða þeim fjölmörgu íbúum landsbyggðarinnar sem þurfa að sækja þessa mikilvægu þjónustu sem um ræðir fyrir aksturinn. Í fámennum byggðarlögum geta slíkar greiðslur einnig skipt máli upp á að hægt sé að veita þjónustu í heimabyggð því vöntun er á sérfræðingum og greiðslurnar gætu aukið hvatann til að veita þjónustuna í fámennari byggðum og mögulega fleira sem þörf hafa fyrir þjónustu sem þessa nýtt sér.

Ég vil með þessari stuttu grein skora á Sjúkratryggingar Íslands og aðra þá sem að málum koma að beita sér fyrir því að opnað verði á þennan möguleika því hér er um að ræða byggðamál og ekki síður lýðheilsumál fyrir landsmenn alla.

Höfundur er sveitarstjóri Dalabyggðar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×