Lækkun upp á hálft prósentustig þýðir að vextir fara úr 5,3 prósentum í 4,8 prósent. Fyrir fram höfðu greinendur búist við vaxtalækkun, en margir höfðu talið að hún myndi nema fjórðungi úr prósentustigi, en ekki hálfu prósentustigi eins og raunin varð.
Árið 2022 ákvað seðlabankinn að hækka stýrivexti nokkuð skarpt, til að bregðast við verðhækkunum og kæla hagkerfið. Nú telja sérfræðingar bankans að verðbólguhorfur séu góðar, og útlit fyrir að verðbólga nái brátt tveggja prósenta markmiði bankans.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í dag að um sterka aðgerð væri að ræða. Henni væri ætlað að varðveita þann árangur sem hefði náðst í efnahagsmálum.
„Vinnumarkaðurinn er á góðum stað. Við viljum halda því þannig. Það er það sem við erum að gera,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Powell.